Litlu atriðin í lífinu geta gert svo mikið fyrir okkur, bæði andlega og líkamlega. Stundum eru þau svo agnarsmá að við þurfum að leita að þeim, en þau eru þarna. Oft er það einungis pínulítil breyting sem að við þurfum að gera til að láta okkur líða miklu betur.

Stundum er nóg að fara úr svörtu peysunni og fara í þá gulu eða appelsínugulu. Bjartari litir lífga upp tilveruna í kringum okkur og okkur sjálf. Blóm í vasa í stofunni eða á eldhúsborðinu geta breytt andrúmsloftinu á heimilinu og hressileg tónlist ekki síður. Það sem þarf fyrir litlu hlutina er jákvæðni, bjartsýni og ákveðni um að finna þá.

Oft er erfitt, fyrir þá sem að eru að stríða við aukakíló að sjá litlu hlutina sem að hægt er að gera til að missa nokkur. Litlu atriðin eru einmitt það sem við ættum að skoða reglulega í fari okkar og aukagrömmin gætu við það farið að fjúka. Best er að breyta til í litlum skrefum, annars er hætta á að þau komi strax aftur og þá oftar en ekki með nokkrum til viðbótar.

Byrjum á því að sætta okkur við okkur sjálf og hvernig við erum núna. Svo setjum við okkur markmið til breytinga, lítil skref í einu. Tökum ákvörðun um að við ætlum að breyta nokkrum litlum atriðum í okkar fari. Byrjum á að hugsa jákvætt, vera bjartsýn og jafnframt ákveðin í að standa okkur í litlu atriðunum sem að við höfum ákveðið að breyta.

Ákveðum að tyggja matinn okkar mun oftar og mun betur, en við höfum nokkurn tíman áður gert. Hvern bita minnst 15-20 sinnum. Þannig náum við að nýta betur næringarefnin úr fæðunni og líkaminn hefur meiri tíma til að finna út og gefa okkur merki, þegar við erum að verða södd.

Síðan skal huga að fjölbreytni á diskinn. Salat getur orðið leiðinlegt til lengdar, en auðvelt er að gera það aðeins meira spennandi með því að bæta við litríkum tegundum. Það er um að gera að skemmta sér við að setja saman marga liti í skálina. Einnig að bæta út í mismunandi fræjum og hnetum. Krydda svo með ferskum kryddjurtum og vera dugleg að prófa nýjar tegundir. Eins er með ávextina, niðurskorna eplið er mun meira spennandi ef að það er stundum kryddað með kanil eða engifer.

Skemmtilegt er að hafa litríkan bolla eða flösku undir vatnið, sem ætti alltaf að vera við hendina til að drekka úr allan daginn, alla daga. Vatnið hjálpar líkamanum á alla vegu og er algjörlega nauðsynlegt öllum, alltaf!  Gott er á hverjum degi að fá sér fullt glas af vatni á fastandi maga og líka fyrir hverja máltíð, sem getur einnig hjálpað til við að borða ekki of mikið.

Gott er að búa til matarplan, setja það niður á blað og endilega skreyta blaðið með skemmtilegum litum og teikningum. Reyna að halda sér við planið eins vel og mögulegt er.  Hér kemur ákveðnin svo sannarlega sterkt inn. Ef ætlunin er að missa kíló þá er best að reyna að halda reglu, bæði um skammtastærð og eins hve langt er á milli mála. Flestum reynist best að borða oft og minna í einu.

Heiðarleikinn við sjálfan sig er svo annað atriði þar sem að ákveðnin er stór þáttur. Flest okkar, segjum að við borðum minna en við gerum og að við æfum meira en við gerum. Þarna getur skeikað upp undir 25% á báðum þáttum, samanlagt er sú tala 100% á fjórum dögum!  Það hefur reynst mörgum best að halda dagbók yfir báða þessa þætti og skrifa allt niður. Heiðaleikinn er bestur og áhrifaríkastur, ekki svindla á sjálfum þér.

Breyting á leið og gönguhraða getur einnig hjálpað mikið. Örlítið meiri hraði þegar gengið er og smálykkja á leiðina sem vanalega er gengin getur haft mikið að segja. Einnig það að labba upp og niður stigann í stað þess að taka lyftuna. Allar svona litlar breytingar geta orðið stórar á vigtinni.

Gott er að hafa í huga að það þarf ekki að klára allt það sem í boði er og reyna að útbúa ekki of mikið. Afganga má líka geyma til næstu máltíðar, frysta þar til síðar eða nota tunnuna, frekar en að vera sjálfur tunnan.

Til að ná þeim markmiðum sem að við setjum okkur, þurfum við alltaf að horfa fram á veginn.  Enda er það svo miklu skemmtilegra að sjá það sem framundan er, frekar en að vera alltaf í sömu sporunum, hvað þá að fara aftur á bak. Lífið er svo skemmtilegt, taktu lítil skref í einu og allt verður bjartara.

Aldrei ætti að segja ALDREI, segja frekar kannski og prófa. Með bjartsýni og jákvæðni er hægt að láta sér líða svo miklu betur og það að missa kíló í leiðinni er bónus.

Tölum við okkur sjálf, segjum okkur hvað við ætlum að gera og trúum því að það takist. Það er ekki bara það að “Við erum það sem að borðum”, heldur ekki síður “Við erum það sem að við hugsum”.

Ímyndum okkur á hverjum einasta morgni, um leið og við förum í fötin okkar að við setjum heita, fallega, sterkgula sól inní brjóstkassann. Við þessa upphugsuðu ímyndun fyllumst við gleði og hita, sem er góð byrjun á köldum vetrardegi. Þannig getum við líka vonandi brætt eitthvað af níðþungu ísklumpunum, sem alltof mörg okkar burðast með yfir daginn. Réttum svo úr okkur og leyfum síðustu krapamolunum að detta og bjóðum brosandi góðan dag.

Er hægt að byrja daginn betur !

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

 

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.