Oft koma upp spurningar um muninn á aðferðafræðum milli heildrænna aðferða og svo hinna hefðbundnu aðferða. Þessar spurningar eru sérstaklega þarfar og ættu allir að velta þessum aðferðum fyrir sér og reyna eftir fremsta megni að lesa sér sjálfir til og fræðast á eigin forsendum.

Mismunurinn er gífurlegur, en ef ætti að útskýra með sem fæstum orðum, þá er svarið að aðalmismunurinn er falinn í orsökum og afleiðingum. Að meðhöndla orsök einkennanna, eða að meðhöndla einkennin sjálf.

Hægt er að ímynda sér líkamann sem hús og viðhaldið á húsinu er líkamleg heilsa. Ef að ekki er hugsað vel um viðhald hússins (heilsuna), gæti t.d. þak hússins (líkamans) byrjað að leka. Í hvert sinn sem að rignir fer að leka vatn inn í húsið. Vatnið eru einkennin, sem að myndast vegna leka þaksins, sem kom vegna slæms viðhalds!

Hvernig þessar mismunandi aðferðir myndu taka á þessu þaklekavandamáli, væri einfaldlega hægt að lýsa á eftirfarandi hátt.

Hefðbundna leiðin myndi finna leið til að mæla út magn vatnsins, finna út með þeim mælingum t.d. fjölda dropa á klukkustund og lítra á dag, fundið yrði nafn á vandamálið t.d. „Lekasjúkdómur“. Einkenni „Lekasjúkdómsins“ er vatnið, og þar sem að sjúkdómurinn framleiðir vatnseinkenni, þarf að finna út leið til að lagfæra vatnseinkennin. Ef ekki finnst leið til að uppræta vatnseinkennin hratt, þá flæðir um allt hús og þá gæti mikið skemmst út frá vatninu.

Heildræna leiðin færi aðra leið, vatnslekinn yrði notaður sem vísbending til þess að finna orsökina fyrir vatninu. Farið væri í þá vinnu að grafast fyrir um hvaðan vatnið kæmi og afhverju það á annað borð byrjaði að dropa inn í húsið. Þegar að orsökin væri fundin fyrir upphaflega vandamálinu, sem að í þessu tilfelli væri gat á þakinu vegna vanrækslu á viðhaldi, væri fundin leið til að lagfæra þetta gat og ráðleggja um áframhaldandi gott viðhald til að ekki fari aftur að leka.

Heildræna aðferðin myndi einnig alltaf taka alla heildarmyndina og skoða allt þakið og allt húsið (Almennt líkamsástand) til að koma í veg fyrir að fleiri göt myndist með því að styrkja heildina.

Aftur á móti  yrði hefðbundna leiðin sú, að finna leiðir til að lagafæra það sem að vatnið er að skemma og finna út aðferðir til að innviði hússins skemmist ekki, t.d. viðarhúsgögnin gætu bólgnað upp, standi þau í vatninu (húsgagnasjúkdómur) og blauta teppið færi að mygla (teppasjúkdómur) og skammhlaup gæti orðið, ef að vatn kæmist í  t.d. sjónvarpið (raftækjasjúkdómur), finna þyrfti viðeigandi lækningu fyrir hvern „sjúkdóm“ fyrir sig.

Alltaf ætti að meðhöndla upprunalega vandamálið, ekki einkennin sem koma sem afleiðing, sem lýsir sér best hér. Ef að gatið á þakinu er lagað þá er vandamálið og einkennin úr sögunni. Aftur á móti ef að vatnið er meðhöndlað, en ekki gatið, þá endurtaka einkennin sig alltaf aftur í hvert sinn sem að fer að rigna.

Heildrænir meðferðaraðilar taka heildarsögu skjólstæðinga sinna (ástand alls hússins), hlusta og skrá niður öll einkenni, en sjaldnast er eitthvað eitt einkenni það sem að þeir leggja áherslu á að leiðrétta beint. Jafnvel horfa þeir framhjá sumum einkennum þar sem að þau eru augljóslega bein afleiðing af orsökum vandans, samanber vatnslekann.

Í raun og veru eru einungis fáar orsakir fyrir ójafnvægi heilsunnar. Þó að til séu þúsundir sjúkdómsheita, sem eru að mestum hluta byggðir á einkennalýsingum, er hægt að rekja þau til einhverra af þessum þremur orsökum.

Í fyrsta lagi að líkamann (eða hugann), vantar eitthvað, t.d. næringu, súrefni, ferskt loft, sólarljós, ást, svefn o.s.frv.

Í öðru lagi að líkaminn (eða hugurinn) hefur of mikið af einhverju sem að hann á erfitt með að vinna úr eða er mengaður af auka- og eiturefnum.

Í þriðja lagi að líkaminn (eða hugurinn) hefur ekki nægilegt flæði, hvorki líkamlega né orkulega. Sem kemur í veg fyrir að líkaminn vinni á réttan hátt t.d. hæg melting, hæg blóðrás og frumuendurnýjun og hæg taugaboð við áreitum, eins almenn þreyta og leiði sem að hægja á starfsemi.

Það er sama hvaða einkenni eru borin upp hjá heildrænum meðferðaraðila, alltaf er leitað að rót vandans. Gæti verið um að ræða mengað umhverfi, er unnið með eiturefni, eru margir streituþættir sem að eru truflandi, í vinnunni, í sambandinu eða hjónabandinu, hver er lífsstíllinn, er viðhöfð næg hreyfing og útivera í fersku lofti og í sólarljósi, er drukkinn nægur vökvi og áfram mætti telja spurningar sem að slíkur meðferðaraðili myndi spyrja að.

Allt eru þetta mjög mikilvægir þættir til að halda góðri heilsu og ásættanlegu jafnvægi til að upplifa síður einkenni. Ójafnvægi á þessum þáttum geta leitt til mismunandi áhrifa á líkamsstarfsemina og valdið einkennum, sem fá hin ýmsu sjúkdómsheiti.

Til að komast í veg fyrir slíkt ójafnvægi og einkenni (sjúkdómsheiti), þarf að huga vel að viðhaldi líkamans (hússins). Venjulega hugsum við vel um hýbýli okkar og eigur og reynum að gera rétt í því hvað er best að gera til að halda öllu í sem bestu ástandi. Við málum húsið að utan og innan, við þrífum reglulega og reynum að halda garðinum sómasamlegum, við pössum  að setja rétta tegund af bensíni á bílana okkar, 95 eða 98 oktan og skiptum reglulega um olíusíu, en pössum við nægjanlega vel, að setja rétta fæðu og bætiefni í líkamann okkar og pössum við nægjanlega upp á andlega og tilfinningalega heilsu til að halda ásættanlegu jafnvægi.

Þetta er grunnurinn fyrir góðri heilsu og góðu lífi, en ekki sjúkdómavæðing og fleiri lyf gegn öllum einkennum. Ef að við hugsum eins vel um líkamann og við gerum um veraldlegar eigur okkar, þá þurfum við ekki að hlaupa um allt húsið með fötur til að taka við vatninu sem að dropar niður um leka þakið á rigningardögum. Þá myndast ekki götin á þaki hússins (líkamans).

Aftur á móti, ef að götin hafa nú þegar myndast og droparnir leka (einkennin) niður um þakið, þá er mun árangusríkari leið, að leita að upprunalegu orsökinni og laga götin í stað þess að stilla upp fötum til að taka við dropunum.

 

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

 

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.