Heilsuþrepin sjö

hlustum á líkamann, www.htveir.isMannslíkaminn er kraftaverk, hann þekkir leiðir til sjálfsheilunar og er fljótur að bregðast við ójafnvægi með einkennum sem við ættum að hlusta á. Líkaminn sýnir einkenni þegar honum er misboðið á einhvern hátt. Einkenni sýna sig t.d. sem hiti, slímmyndun, magaóþægindi og svo mætti lengi telja. Einkennin geta verið missterk og misalvarleg og því nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeim og að vera meðvituð um að þau eru að segja okkur að staldra við og skoða hvað veldur ójafnvæginu.

Hver og einn einstaklingur þarf að meta þessar spurningar á sínum forsendum og bregðast við þeim á sinn hátt til að koma sér aftur í jafnvægi og gefa líkamanum tækifæri til að halda sér eins ofarlega í heilsuþrepunum sjö og kostur er.

 

Fyrsta þrep

Heilbrigði:Hér er viðkomandi eins heilbrigður og best verður á kosið. Líkaminn nær að verja sig fyrir umhverfinu bæði andlega og líkamlega. Jafnvægi er til staðar, líkamlega, andlega, hugarfarslega og tilfinningalega.

 

Annað þrep

Jafnvægi/ójafnvægi:Hér er líkaminn farinn að upplifa ójafnvægi öðru hvoru og sýnir þá mild sjúkdómseinkenni. Í þessu þrepi er nægjanlegt að staldra aðeins við og taka því rólega í 1-2 daga og þá nær líkaminn að rétta sig við sjálfur án utanaðkomandi hjálpar. Hér er verið að tala um t.d. vægan höfuðverk, vöðvabólgu eða lítilsháttar truflun á meltingu eða tíðarhring.

 

 

Þriðja þrep

Bráðaveikindi:Þekktasta ástandið í þessu þrepi er flensa og kvef með tilheyrandi aukinni slímframleiðslu og hita. Hér ætti viðkomandi að hvílast og næra hreinsunarkerfi líkamans með nægum vökva. Þetta ástand gengur oftast yfir á 5-10 dögum. Algengt er að við gefum okkur ekki tíma til að liggja þessi veikindi af okkur og grípum til lyfja, til að flýta ferlinu sem er í sjálfu sér óþarfi, þar sem ekki er um alvarlegt ástand að ræða. Ef við hlustum ekki og breytum engu, höldum við áfram niður þrepin og endum í síendurteknum sýkingum.

Í þessum þremur fyrstu þrepum teljumst við vera við góða heilsu. Eðlilegt er að vafra á milli þrepa eitt og þrjú.

 

Fjórða þrep

Þrálátar sýkingar:Í fjórða þrepi er líkaminn kominn í mikið ójafnvægi og farinn að minna reglulega á sig. Líkaminn sýnir reglulega sterk einkenni og dregið hefur úr getu hans til að hreinsa sig sjálfur. Úrgangsefni fara að hlaðast upp og mikilvæg sveppa- og bakteríuflóra slímhúðar fer að raskast, sem veldur auknu álagi á ónæmiskerfið. Þetta sýnir sig með endurteknum, þrálátum sýkingum t.d. kvefi, flensum og ennis- og kinnholubólgum. Einnig getur slíkt ástand komið fram sem mikið orkuleysi og depurð.

 

Fimmta þrep

Ofnæmi og óþol:Þetta þráláta ástand í fjórða þrepi íþyngir ónæmiskerfinu það mikið að það fer að lokum að bregðast við meinlausum efnum, sem við ættum annars að þola vel, má þar t.d. nefna mjólk, egg, nikkel, ryk, o.fl. Hér sýnir líkaminn veikleika og einkenni eins og t.d. frjókornaofnæmi, astma og óþol gagnvart ýmsu sem viðkomandi þoldi áður.

 

Sjötta þrep

Sjálfsónæmi/hrörnun:Á þessu stigi hefur líkaminn orðið ansi mikið að gera, bæði við að hreinsa út úrgangsefni og ofnæmisframkallandi efni. Hann nær ekki að hreinsa sig nægjanlega og úrgangsefnin byrja að safnast fyrir í bandvef, vöðvum, húð, sinum og liðum. Einstaklingurinn fer að finna fyrir einkennum eins og verkjum í vöðvum líkamans, lið- og gigtarverkjum, lungna- og húðsjúkdómum. Hrörnun á sér stað í blóðrásarkerfinu og innri líffærum, sem sýna sig t.d. sem separ í þörmum, legsigi, skeifugarna- og magasári, blóðþrýstingsvandamálum og einnig stoðkerfisvandamálum. Eftir langvarandi áreiti á ónæmiskerfið, getur líkaminn byrjað að mynda sjálfsónæmi.

 

Sjöunda þrep

Frumubreytingar:Langur vegur getur verið á milli þrepa 6 og 7. Hér er ástandið orðið alvarlegt. Einstaklingurinn hefur ekki hlustað á varnir líkamans í gegnum tíðina, heldur haldið áfram með óbreyttum lífsstíl og hegðun. Bandvefur líkamans tekur ekki við meira magni af úrgangsefnum, þau þröngva sér þá inn í frumurnar, sem hvorki fá nægt súrefni, né næringu til að losa sig við úrgangsefnin. Eftir langvarandi uppsöfnun úrgangsefna og skorti á súrefni og næringu, bugast brennsla frumnanna og þær geta stökkbreyst í óvinveittar frumur sem lifa best í súrefnislitlu umhverfi.

 

Mikilvægt er að við lærum að hlusta á líkamann!

Spurningar og svör – Spyr.is

 

Spurning 1

Spyr um 4.þrep: Er það réttur skilningur hjá mér að líkaminn á að geta unnið á ofnmæi eins og frjókornaofnæmi sjálfur? Gætir þú bent á hvernig?

Svar frá htveir

Í fjórða þrepi er líkaminn kominn í mikið ójafnvægi og farinn að minna reglulega á sig með því að sýna margvísleg einkenni. Þú nefnir sérstaklega frjókornaofnæmi.

Númer 1, 2 og 3 þarf að styrkja ónæmiskerfið.

Enginn einstaklingur bregst nákvæmlega eins við áreiti og því þarf að skoða hvert og eitt tilfelli fyrir sig.

Ýmis bætiefni geta hjálpað líkamanum, þar má  t.d. nefna meltingargerla, magnesium, quercitin, alpha lypoid acid, L-lysin, C-, B6-, B12- og E-vítamín og góðar Omega 3 fitusýrur. Breytt mataræði getur oft hjálpað við frjókornaofnæmi.

Fyrir marga hjálpar að forðast vissar fæðutegundir, t.d. glúteinríkt fæði, ýmsar mjólkurvörur, álegg, vín og osta.

Sumir þola það að taka inn frjókorn, byrja smátt og auka magn hægt og rólega, t.d. mætti byrja á að setja 1 korn út í morgungrautinn og auka svo allt upp í 2 tsk., en nauðsynlegt er að fara varlega ef um slæmt ofnæmi er að ræða, þetta hentar alls ekki öllum.

Mjög gott er að byrja að undirbúa líkamann snemma vors eða síðla vetrar. Með þessum breytingum styrkist líkaminn og verður ekki jafn móttækilegur fyrir áreiti frjókornanna.

Einkenni sem koma fram hjá heilbrigðum einstaklingi við það að skera lauk, eru t.a.m. táramyndun, sviði, roði og kláði í augum. Þessi einkenni eru lík þeim sem einstaklingur með frjóofnæmi sýnir.

Hómópatía byggist á lögmálinu “líkt læknast með líku” og hefur t.d. remedían Allium cepa, sem unnin er úr lauk, oft gefist mjög vel í frjóofnæmistilfellum

 

Spurning 2

Þegar börn eru mjög gjörn á að fá kvef hvað getur þá verið að valda því? Oftast gefum við börnum ekki mikið af lyfjum og höldum þeim inni en af þremur börnum hjá okkur þá er eitt þeirra mjög gjarnt á kvef, háls- og nefkirtlar hafa verið teknir, hann er 7 ára

Svar frá htveir

Við sem einstaklingar erum öll einstök og því er það ekkert óeðlilegt að eitt barn úr systkinahópi bregðist öðruvísi við en hin og sýni einkenni sem ekki eru venjulega að hrjá systkinin.

Heillavænlegast er að meðhöndla þennan 7 ára peyja heildrænt, taka heildarsögu hans fyrir og finna út hvernig og hvenær orka hans kemst í ójafnvægi og hann byrjaði að verða svo móttækilegur fyrir kvefi.

Einnig gæti verið um að ræða steinefnaskort eða óþol fyrir einstakri fæðutegund sem hin systkinin þola vel en hann er viðkvæmur fyrir.

 

Spurning 3

Hvað mælir Guðný með að fólk geri sem komið er á þrep 7 ? Það er væntalega ekki nóg að leggjast í rúmið og bíða eftir að maður verði hraustur á ný ?

Svar frá htveir

Það að leggjast í rúmið og bíða eftir að maður verði hraustur á ný er ekki heillavænleg leið til bættrar heilsu. Þegar viðkomandi er kominn niður á þrep 7 hefur líkaminn líklegast sýnt margvísleg einkenni sem ekki hefur verið hlustað á og því ekki brugðist við.

Enginn annar en við sjálf getum endurheimt okkar eigin heilsu og því er svo mikilvægt að við þekkjum hvernig okkar líkami segir frá.

Mikilvægt er að við lærum að hlusta á þau einkenni sem líkaminn gefur frá sér.

Margar leiðir eru í boði til að snúa sér við í þrepunum og nálgast aftur  heildræna heilsu. Lífsstílsbreytingar, meðvitund um eigin líðan, þolinmæði og skynsemi eru nauðsynlegar og með jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi verður prílið upp hvert þrep auðveldara.

Heillavænlegast er að leita sér heildrænnar aðstoðar þar sem erfitt er að gefa almenna ráðgjöf í slíkum tilfellum, hvert einstakt tilfelli er sérstakt og þarfnast einstaklingsmiðaða nálgun og ráðgjöf.

 

Spurning 4

Sæl Guðný og takk fyrir mjög áhugaverða pistla. Ég finn mjög oft fyrir syfju síðdegis en er síðan fín þegar líður á kvöldið. Gæti þetta eitthvað verið tengt mataræði?

Svar frá htveir

Syfja síðdegis getur tengst því hvað og hvenær við borðum, líkaminn notar mismikla orku við að melta mismunandi fæðu.

Mörg okkar þekkja það ástand að það svífur á okkur syfja eftir að hafa borðað þungan hádegisverð, við ættum kannski að taka upp “Siesta” líkt og spánverjar

Einnig er það einstaklingsbundið á hvaða tíma dags við erum hressust eða höfum minnstu orkuna, sumir eru morgunhanar og aðrir næturhrafnar. Ýmislegt annað gæti ollið síðdegisþreytu, þar má t.d. nefna ónógan svefn undanfarið, álag og streitu, mikla setu við vinnustöð eða jafnvel þurrk í líkamanum, vatnsskort eða súrefnisskort eftir langan vinnudag innandyra.

 

Spurning 5

Sæl og takk fyrir fróðlegan pistil. Viltu meina að í hvert sinn sem maður finnur fyrir höfuðverk eða einhverjum ónotum að þá eigi maður að leggjast í rúmið?

Svar frá htveir

Hvort að gott sé að leggjast fyrir ef höfuðverkur er til staðar, fer svo sannarlega eftir því hvernig höfuðverkurinn sýnir sig og hver er orsök höfuðverkjanna. Margt getur legið á bak við slíka verki en sem betur fer er oftast ekki um alvarlegt ástand að ræða. Þegar um síendurtekna höfuðverki er að ræða er gott að fylgjast með eftirfarandi:

  • Hvenær koma höfuðverkirnir?
  • Fylgja þeir tíðarhringnum?
  • Koma þeir alltaf á sama tíma, dags eða nætur?
  • Þarf að nota dökk sólgleraugu, í hvert sinn sem að farið er út í sól eða mikla birtu, til að koma í veg fyrir að höfuðverkir byrji?
  • Gæti verið að kjálkavöðvarnir væru ástæða höfuðverkjanna?
  • Gæti verið að vöðvabólga eða streita væru ástæða höfuðverkjanna?
  • Kemur súkkulaðiát, rauðvínsdrykkja, sítrusávextir, MSG (monosodium glutamate) eða önnur matvæli höfuðverkjum af stað?

 

Hér er linkur á ágætis grein um höfuðverki og hvernig má bregðast við slíkum.

Höfuðverkur er eitt af þeim einkennum sem líkaminn sýnir þegar um ójafnvægi er að ræða og því ber að hlusta á það einkenni sem og önnur. Stundum er nóg að hvíla sig um stund, fara í gönguferð í fersku lofti og oft getur vatnsdrykkja slakað á höfuðverkjum.

 

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

Pistill var áður birtur á Spyr.is og spurningar komu frá lesendum.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.