molluscum-contagiosum- Leikskólavörtur, frauðvörturLeikskólavörtur (molluscum contagiosum), einnig nefndar frauðvörtur eða flökkuvörtur  eru 2-5mm ljósbleikar, oftast vatnskenndar, bólur eða blöðrur á húðinni. Um er að ræða veirusýkingu  (DNA Pox virus) sem getur komið upp hjá öllum aldurshópum, en er algengust hjá börnum.

Vörturnar eru smitandi og eru smitleiðir algengastar með beinni snertingu við sýktan einstakling og því algengt að systkini fái útbrot á svipuðum tíma og að mörg börn á sömu leikskóladeildinni sýni einkenni með stuttu millibili. Smitleiðir geta einnig verið með óbeinum leiðum, t.d. ef notað er sama handklæði og sýktur einstaklingur notaði áður og eins getur smit borist með vatni í sundlaugum.

Meðgöngutími frá smiti og þar til vörturnar koma fram á húðinni getur verið allt frá tveim og upp í átta vikur. Algengast er að sjá vörturnar á andliti, hálsi, handakrikum, handleggjum og búk en þær geta verið hvar sem er á líkamanum. Þessar vörtur eru góðkynja og oft hverfa þær á 2–18 mánuðum án meðferðar, en svo eru einstaka tilvik þar sem þær virðast hafa “eilíft líf” og stundum verða þær að sárum sem gróa seint og illa, en það er sem betur fer ekki algengt.

Forðist að klóra í vörturnar, við það geta þær opnast og valdið frekari útbreiðslu, einnig  geta þá bakteríur valið sýkingu á svæðinu.

Forðist að nota fatnað frá sýktu barni og handklæði sem komist hefur í snertingu við sýkta húð, á aðra einstaklinga.

Gætið fyllsta hreinlætis og þvoið hendur reglulega eftir að hafa komist í snertingu við vörturnar.

Þegar um er að ræða börn í ójafnvægi með raskað ónæmiskerfi getur hómópatía verið góður kostur til að styrkja ástand barnsins heildrænt. Þá er öll heilsufarssaga þess tekin saman og unnið með heildarmyndina og öll einkenni sem barnið sýnir, bæði sem snúa að vörtunum sjálfum og einnig öðrum atriðum sem snúa að almennri líðan barnsins. Þá er remedía fundin sem ætti að henta barninu, hvort heldur er vegna kláða eða öðru í kringum vörturnar eða öðrum einkennum sem það sýnir á þeim tíma.

Hómópatískar remedíur sem hafa gagnast vel við flökkuvörtum :

Silica: Gæti átt við ef barnið er með vörtur á efri hluta búks, baki, upphandlegg eða hálsi. Barnið finnur til þegar komið er við vörturnar og getur fundið fyrir slætti í þeim. Barn sem þarf á Silica að halda er fölt, með hálfgegnsæja húð og því verður auðveldlega kalt. Oft eiga Silica börn erfitt með næringarupptöku og eru með útþaninn maga. Almennt þægileg og meðfærileg börn, en geta þó verið mjög þrjósk.

Thuja occidentalis: Vörturnar geta komið margar saman eða verið ein og sér. Húðin er hrjúf og mikill kláði er í kringum vörturnar, þær eru oft rakar viðkomu og blæða auðveldlega. Vörturnar geta komið hvar sem er á líkamanum. Barn sem þarf á Thuja occidentalis að halda er oft lokað, dult og felur það jafnvel fyrir foreldrum hvernig því líður, oft taka foreldrar eftir því að barnið vill vera annað en það er.

Einnig má nefna Tuberculinum, Carcenosinum, Calcarea arsenicum, Calcarea carbonicum, Kali Iodinum, Staphysagria og Sulphur, en hér eru einungis fáar upptaldar af þeim remedíum sem gætu gagnast.

 

Áburður frá Villimey kallaður Fótagaldur hefur reynst mörgum mjög vel ásamt hómópatískum remedíum. – berið þunnt lag á hverja vörtu og til að forðast smit þá skal gæta fyllsta hreinlætis og þvo vel fingur á milli þess sem borið er á hverja vörtu.

Séu vörturnar stórar og þær á svæðum þar sem þær valda óþægindum er möguleiki að leita til heilsugæslustöðvar eða húðsjúkdómalæknis og láta frysta þær, eitra eða skafa, en slíkar aðferðir skilja oft eftir ör á húðinni.

Verið þolinmóð,  ástandið er frekar lýti og sjaldnast hættulegt, einkennin ganga yfir í flestöllum tilvikum á nokkrum mánuðum.

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is

Heildræn heilsa á facebook
Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem kindle útgáfu (ebook) á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem kindle útgáfu (ebook).
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.