Reglulega blossa upp hinar hefðbundnu kvefpestir, oftast verstar í vetrarbyrjun. Þeim fylgja einkenni eins og hiti og aukin slímframleiðsla, þreyta, orkuleysi og almenn vanlíðan. Þetta ástand gengur langoftast yfir á u.þ.b. 5-10 dögum, en því miður gefum við okkur sjaldnast tíma til að hvíla svo lengi.

Ef um er að ræða flensu birtist hún oftast mjög skyndilega og skellur á með meiri krafti en ef um er að ræða hefðbundið kvef. Byrjunareinkenni geta verið, hiti, hrollur, höfuðverkur, vöðvaverkir og mikill slappleiki. Öndunarfæraeinkenni eins og hósti, hálsóþægindi, nefstífla og nefrennsli eru oftast einnig til staðar. Lungnabólga í kjölfar inflúensu er algeng, sérstaklega hjá eldra fólki, en aðrir fylgikvillar geta verið t.d. berkju- og skútabólga.

Besta ráðið er að liggja fyrir, hvílast, drekka mikið vatn og nýkreista ávaxtasafa til að næra hreinsunarkerfi líkamans.

Hér fylgja einnig ýmis önnur ráð til að hjálpa líkamanum að yfirvinna þessi einkenni.

Ólífulaufþykkni hefur fengið viðurnefnið “pensilín nútímans”. Það má taka til að fyrirbyggja kvef og flensur, er mjög virkt gegn vírusum og sýklum og skertri starfsemi ónæmiskerfisins. Það dregur úr bólgum og vinnur á kvefi, öndunarfærasjúkdómum og flensum.

Sólhattur hefur reynst prýðilega sem fyrirbyggjandi gegn kvefi og flensum. Mikill kostur við sólhatt er að auk þess að styrkja ónæmiskerfið, vinnur hann á sýklum, án þess að skaða gerlagróður meltingarfæranna.

Grapefruit seeds extract (GSE) hefur verið kallað náttúrulegt sýklalyf. Það ræðst gegn bakteríusýkingum, sveppasýkingum og oft er jafnvel talað um að það ráði við sumar veirusýkingar sem pensilín gerir ekki.

Engiferte ætti að drekka við hósta og kvefi á byrjunarstigi. Engifer er mjög hitagefandi, það setur hita í kroppinn að rífa niður ferska rót í súpur og grænmetisrétti. Einnig er ráð að rífa niður engiferrót í fótabað fyrir kalda fætur.

Cayennepiparte, er einnig gott, þá skal blanda u.þ.b. hnífsoddi af cayennepipar í heitt vatn. Einnig er hægt að setja cayennepipar í Engiferte og bragðbæta með hunangi eða kreista ferskan sítrónusafa í teið.

Hvítlaukur, styrkir ónæmiskerfið, er bakteríudrepandi og vinnur því gegn öllum sýkingum í líkamanum. Hægt er að fá hann í hylkjum og í fljótandi formi og gott er að nota hann ferskan í allar súpur og matargerð.

Grænar jurtir eins og spirulina, chlorella, bygggras og steinselja innihalda allar mikið af næringarefnum, steinefnum og mikið af blaðgrænu, að neyta þeirra er eins og að fá súrefni inn í líkamann.

Borða ætti auðmeltanlegan mat, t.d. súpur. Forðast brasaðan, steiktan mat sem líkaminn þarf að nota mikla orku við að melta. Sneiða ætti hjá mjólkurvörum þar sem þær geta verið slímmyndandi, einnig eru bananar taldir slímmyndandi og ráðlegt er að forðast allan sykur. Mikilvægt er að drekka mjög vel af vatni og hreinum ávaxtasöfum.

Góð næring er miklu meira en bara að fylla magann, hún hefur gríðarleg áhrif á almennt heilsufar okkar og orku. Ef líkaminn fær of lítið af vítamínum og steinefnum í langan tíma, fer hann að sýna vannæringareinkenni og mynda sjúkdóma.

Eitt af því sem áríðandi er að hafa í huga er fjölbreytni. Til að vera viss um að fá örugglega öll þau næringarefni sem að við þurfum, ættum við að velja allan regnbogann af litríkum mat. Litríkur matur samanstendur að mestu af grænmeti og ávöxtum, sem eru hollir, góðir og vítamínríkir og eru í leiðinni trefjarík og hitaeiningasnauð fæða. Langbestu vítamínin og steinefnin eru þau sem að við fáum úr fæðunni sjálfri.

Grasker, gulrætur, spínat, sætar kartöflur, grænt kál og mangó eru rík af A-vítamíni og beta-karótíni.

Sítrusávextir, jarðarber, blómkál, brokkolí, tómatar, sætar kartöflur og aspas eru rík af C-vítamíni.

Jurtaolíur, möndlur, gróft mjöl, sætar kartöflur og spínat eru rík af E-vítamíni.

D-vítamín er nauðsynlegt líkanum til að upptaka hans á kalki sé nægjanleg. Sólskin er best til að veita líkamanum þetta vítamín, einnig Omega 3 fitusýrur, feitur fiskur, egg og lifur.

Vallhumall hefur líka reynst vel við kvefi og flensueinkennum. Hægt er að nota hann í te eða jafnvel mylja í heitt vatn og anda að sér. Vallhumall er talinn vægt veirudrepandi.

Íslensk fjallagrös hafa ýmsa góða eiginleika, sem nýtast vel til lækninga. Þau eru talin hafa mýkjandi og græðandi áhrif á slímhúð í öndunarfærum og meltingarvegi og styrkja ónæmiskerfið. Þau eru sýkladrepandi.

Fjallagrös eru góð í ýmsan mat, t.d. brauð, grauta og te. Í bakstri fara þau vel saman við spelt. Mjög gott er að setja smávegis af fjallagrösum saman við haframjöl í hafragraut og hafa mulin fjallagrös saman við jurtateblöndur.

Fjallagrasate

 • 2 tsk fjallagrös
 • 2-3 dl vatn
 • Hunang, sítróna

Hellið sjóðandi vatni yfir grösin, látið standa undir loki í 10 mínútur. Bragðbætið með hunangi eða sítrónu.

Kvöldte með fjallagrösum

 • Mulin fjallagrös
 • Þurrmulin elfting
 • Þurrmöluð birkilauf og sprotar
 • Kerfilfræ eða þurrmulinn kerfill
 • Þurrkað blóðberg

Blandið jurtunum saman að jöfnum hlutum. Hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í nokkrar mínútur.

Fjallagrasasúpa

 • 1 pakki fjallagrös
 • ½ lítri vatn
 • ½ lítri mjólk
 • Salt, hunang

Setjið fjallagrösin í vatnið og látið suðuna koma upp. Bætið mjólkinni í. Takið af hellunni þegar sýður og látið standa í nokkrar mínútur. Saltið og bragðbætið með hunangi.

Nauðsynlegt er að læra að hlusta á líkama sinn og nema skilaboð hans. Veikindi eru ekki alltaf neikvæð. Eðlilegt er að veikjast 1-2svar á ári. Líta má svo á, að ónæmiskerfið sé í góðum leikfimitíma, þar sem nauðsynlegt er fyrir ónæmiskerfið að fá áreiti til að halda sér í formi. Einnig ef halda á ónæmiskerfi líkamans í góðu formi er hreyfing nauðsynleg, skynsamleg hreyfing sem hentar hverjum og einum einstaklingi er best, sníða skal hreyfinguna eftir getu og ástandi sínu. Rösk 10 mínútna ganga getur reynst best fyrir einn, á meðan að sjósund eða nokkurra klukkutíma fjallganga reynist öðrum betur.

Jafnvægi á sál og líkama er nauðsynlegt til góðrar heilsu, þannig forðumst við best kvef og flensur. Einnig er hreinlæti mikilvægur þáttur, þá sérstaklega reglulegur handþvottur.

Hómópatía er einn valkostur sem getur haft mikið að segja til að halda líkamanum í góðu jafnvægi. Mikið er til að hómópatískum remedíum sem hjálpa við kvef- og flensueinkenni. Hver einstaklingur er einstakur og bregst við einkennum á mismunandi hátt, þó svo að tveir einstaklingar séu með kvefpest þá bregðast líkamar þeirra mismunandi við og sýna gjörólík einkenni.

Einstaklingur A – skelfur úr kulda, vill vera dúðaður undir sæng og fá heitt að drekka.

Einstaklingur B – er að kafna úr hita, svitnar og vill ganga um berfættur og á hlýrabol og vill aðeins ískalt vatn, helst með klaka.

Þessir tveir einstaklingar þurfa sitthvora remedíuna þó svo að báðir hafi svokallaða kvefpest. Þetta sýnir okkur að sjúkdómsheiti skiptir ekki máli í hómópatíu heldur það, hvernig hver og einn bregst við ójafnvægi á sinni lífsorku.

Tekið skal fram að ávallt er heillavænlegast að leita sér aðstoðar hjá reyndum hómópata við val á hæfustu remedíunni í hverju tilfelli.

Ilmkjarnaolíur geta verið hjálplegar þegar verið er að kljást við kvef- og flensueinkenni. Góð leið er að nota þær til innöndunar, í eðli sínu gufa ilmkjarnaolíur auðveldlega upp í gufuformi og eiga þær þá mjög greiða leið inn í háls, nef, berkjur, lungu og blóðrás.

Hægt er að gera þetta á nokkra vegu:

2-3 dropar settir í eldhúsbréf og andað að sér eftir þörfum, hjálpar til við að losa um stíflur og er ágætis vörn gegn sýkingum.
1-2 dropar settir á koddaver, hjálpar við að losa um stíflur í nefi á nóttinni.
Nota má ilmkjarnaolíur í bað til að losa um stíflur og auðvelda öndun.

Aðferðin sem flestir þekkja eflaust best er gufuinnöndun. Þá eru 5-7 drofar settir í skál með heitu vatni, handklæði sett yfir höfuðið og andað að sér. Þessi aðferð er mjög góð til að losa um stíflur í nefi, ennis- og kinnholum.

Kvef- og flensublanda frá Palmarosa

 • Bergamot 8 dropar
 • Rosewood 4 dropar
 • Ginger 3 dropar
 • Helichrysum 3 dropar
 • Basil 2 dropar
 • Pepper black 2 dropar
 • Eucalyptus 2 dropar

Hægt er að nota þessa blöndu í öllum aðferðunum sem nefndar eru hér fyrir ofan.

Til að verjast flensu getur verið gott að setja ilmkjarnaolíur í úðabrúsa og úða út í andrúmsloftið.

Það sem þarf til er:

 • Úðabrúsi (50 eða 100 ml.)
 • 50 ml. flaska fer vel í veski eða vasa.
 • Vatn
 • Tea Tree ilmkjarnaolía 12 dropa
 • Lavender ilmkjarnaolía 6 dropa
 • Lemon ilmkjarnaolía 9 dropa

Til eru margar aðrar óhefðbundnar aðferðir og jurtir sem gætu hjálpað líkamanum að komast yfir tímabundið ójafnvægi og hvet ég alla til að kynna sér sem flestar aðferðir og velja sér þær leiðir sem henta þeirra sannfæringu.

Hugum vel að líkama okkar, hlustum á einkennin sem hann sýnir okkur, bregðumst við á skynsaman hátt og njótum lífsins hraust og fersk.

Gleymum aldrei að reglulegur og góður svefn, ásamt góðri næringu og skynsamlegri hreyfingu er undirstaða góðrar heilsu.

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is

Heildræn heilsa – htveir á facebook
Guðný Ósk hómópati á facebook

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem kindle útgáfu (ebook) á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem kindle útgáfu (ebook).
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.