Áhrif brjóstapúða á líkama einstaklinga (Breast implant illness)
Síðastliðinn 17. febrúar fór ég í aðgerð þar sem brjóstapúðarnir mínir voru fjarlægðir ásamt örvefnum sem þá umlukti. Aðgerðir á borð við þessa eru umfangsmiklar þar sem skurðirnir sem gerðir eru til að fjarlægja púðanna eru stórir ef örvefur er líka tekinn með. Þegar púðar eru undir vöðva þarf oft að plokka örvef af nálægum rifbeinum og slíkt krefst mikillar færni (Chun, e.d.). Áhætta er að gat komi á lunga í því ferli. Þær sem kjósa að láta lyfta brjóstum í sömu aðgerð og hafa áður farið í lyftingu, eiga því miður á hættu á að blóðflæði til geirvartna verði of lítið og að drep myndist í þeim. Líkurnar eru þó sem betur fer ekki miklar. Að aðgerð lokinni tekur svo bataferlið við, en oft eru sett upp dren sem taka það blóð og þann vökva sem myndast í þeirri holu sem púðarnir skilja eftir sig. Dren eru sérstaklega sett ef konur láta lyfta með, en dren og þá sér í lagi sogdren, geta minnkað líkur á drepi í geirvörtum. Kostnaður aðgerða af þessu tagi er misjafn og fer eftir lækni og umfangi hennar. Sé örvefur fjarlægður með brjóstapúða og/eða lyfting gerð er verð hærra en ef einungis sjálfir brjóstapúðarnir eru teknir. Greinarhöfundur borgaði tæpar 700 þúsund krónur fyrir sína aðgerð.

Þessar aðgerðir geta valdið bæði miklu líkamlegu og andlegu óöryggi. Óvissan um útlit brjóstanna að aðgerð lokinni er oft talsverð sem og sá ávinningur sem af aðgerðinni verður. Það er því hægt að segja að þetta leggur enginn á sig nema þeir einstaklingar sem vilja af einhverjum ástæðum ekki lengur hafa brjóstapúða og/eða trúa því og vona að það að láta fjarlægja þá muni hafa mikinn heilsufarslegan ávinning.

Þessi grein á ekki að vera neinn hræðsluáróður. Ef konur kjósa að fá sér sílikon-eða saltvatnspúða er það algjörlega þeirra og ekki mitt að dæma eða skipta mér af. Hins vegar vil ég deila þeim upplýsingum sem ég hef sankað að mér síðastliðin tvö ár. Upplýsingum sem varpa ljósi á þær aðstæður sem til staðar voru þegar brjóstapúðar urðu fyrst leyfðir, efnasamböndin sem í þeim finnast og áhrif þeirra á tugþúsunda kvenna um heim allan. Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í að lesa mér til um þessi mál og taka saman gögn. Því finnst mér það hálfpartinn vera mín siðferðisleg skylda að deila því áfram sem ég hef fundið. Af hverju? Jú því ég hefði sjálf viljað vita þetta allt mun fyrr.

Áður en ég byrja á að rekja sögu brjóstapúða vil ég koma því á framfæri að ég geri mér grein fyrir því að margar konur eru með púða og segjast engin einkenni hafa. Þannig var það hjá mér í mörg ár. Algengt er að einkenni komi fram þegar brjóstaaðgerðum fjölgar vegna púðaskipta eða ef líkaminn verður fyrir áverkum í kjölfar slyss. Einkenni geta einnig farið að koma fram þegar ónæmiskerfi líkamans veikist af einhverjum öðrum ástæðum. Vert er að benda á að fjölmargar konur sem talið sig hafa verið einkennalausar og látið fjarlægja púða af öðrum ástæðum, hafa orðið varar við að eftir púðatöku hverfa meðal annars tíðir verkir í höfði, mjöðmum, liðum, fæðuofnæmi sem og húð- og sjónvandamál. Oft eru konur því ekki meðvitaðar um neikvæð áhrif púðanna fyrr en eftir að þeir hafa verið fjarlægðir.

Brjóstapúðar eru fyrst og fremst aðskoðahlutir sem græddir hafa verið í líkama einstaklinga. Líkaminn bregst við þessum aðskotahlutum með því að búa til örvef utan um þá (Headon, Kasem og Mokbel, 2015). Sumir einstaklingar lenda í að líkamar þeirra hafna brjóstapúðum algjörlega. Saumar geta þá opnast og púðarnir leitað út eða síendurteknar sýkingar eiga sér stað. Auðvitað eru til aðskotahlutir sem gera meira gagn en ógagn og eru algjörlega lífsnauðsynlegir einstaklingum. Aðskotahlutir á borð við hjartagangráð. En brjóstapúðar falla ekki í þann flokk og eru engin lífsnauðsyn. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér áhrif aðskotahluta á líkamann enn frekar, þá er myndin „Bleeding Edge“ á Netflix mjög áhugaverð.


Upphaf brjóstapúða
Frá því um 1895 hafa tilraunir verið gerðar með ígræðslu ýmissa aðskotahluta í brjóstum kvenna. Allt jú í von um að stækka þau. Hlutum á borð við glerbolta, fílabein, ull, gúmmi og svampa. Eðlilega höfðu slíkar ígræðslur ekki góð áhrif og í flestum tilfellum hafnaði líkami kvenna þeim aðskotahlutum sem í þá voru settir. Um 1950 til 1960 fóru læknar svo að sprauta sílikoni og öðrum svipuðum efnum beint inn í brjóst kvenna. Talið var að um 50.000 konur fengu slíkar fyllingar í líkama sína. Afleiðingarnar voru hnúðabólgur og hörð brjóst. Í kjölfarið þurfti að fjarlægja brjóst flestra þeirra. Það var svo árið 1961 sem fyrsti sílikonpúðinn var ígræddur í konu. Hann var framleiddur af brjóstapúðaframleiðandanum Dow Corning. Þremur árum seinna var svo fyrsti saltvatnspúðinn notaður (Anonymous, e.d.a.).

Það var ekki fyrr en tuttugu og sjö árum eftir fyrstu brjóstastækkunaraðgerðina með sílikonpúðum, eða um 1988, sem FDA (Matvæla- og Lyfjaeftirlit Bandaríkjann) fór að kanna öryggi brjóstapúða. Gerðu þeir kröfu á að framleiðendur myndu sýna fram á af þeim hlytist enginn skaði. Fjórum árum seinna bannaði FDA svo notkun púðanna þar sem ekki voru til nægilega góðar upplýsingar um öryggi þeirra. Hins vegar leyfðu þeir framleiðendum að græða brjóstapúða í einstaklinga í tilraunaskyni. Það var leyft svo hægt væri að fylgjast með áhrifum þeirra á þá einstaklinga sem þá fengu (Anonymous, e.d.a.).

Árið 1995 varð brjóstapúðaframleiðandinn Dow Corning gjaldþrota. Ástæðan var fjöldinn allur af lögsóknum frá konum sem höfðu látið græða í sig brjóstapúða framleidda af þeim og orðið veikar í kjölfarið. Konurnar sem um ræðir fengu meðal annars krabbamein, sjálfsónæmissjúkdóma, gigt og taugasjúkdóma. Að semja við konurnar kostaði fyrirtækið margar billjónir og því varð það gjaldþrota (Anonymous, e.d.a.; Anonymous, e.d.b.). Upplýsingar um þau efnasambönd sem fundust í púðum Dow Corning má svo sjá á meðfylgjandi mynd hér fyrir neðan. Gerðu þeir kröfu á að framleiðendur myndu sýna fram á af þeim hlytist enginn skaði. Þessi efni mátti bæði finna í þeirri sílilkonskel sem brjóstapúðanna umlukti sem og sjálfu innihaldi púðanna. Það þarf ekki nema að lesa yfir þennan lista yfir til að skilja af hverju konur urðu svona veikar við það að fá Dow Corning púða ígrædda í sig.


Rannsóknir á brjóstapúðum og brjóstapúðaframleiðendur
Þær rannsóknir sem fram höfðu komið á þessum tíma og vildu meina að brjóstapúðar voru öryggir voru kostaðar af brjóstapúðaframleiðendum eins og Dow Corning. Rannsóknarteymi á rannsóknarstofum fengu umtalsverða styrki frá Dow Corning og má í raun segja að niðurstöður voru hagræddar eftir hentisemi. Notkun brjóstapúða var ekki leyfð lengur í Bandaríkjunum á þessum tíma nema í tilraunaskyni og þannig héldu rannsóknir kostaðar af brjóstapúðaframleiðendum áfram. Vegna niðurstaðna þessara kostaðra rannsókna voru saltvatnspúðar aftur leyfðir árið 2000 og sílikonpúðar sex árum seinna. Konur 18 ára og eldri gátu þá fengið sér saltvatnspúða, en sílikonpúðar stóðum þeim konum til boða sem höfðu náð 22 ára aldri (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).

Engar langtímarannsóknir um öryggi brjóstapúða voru þó enn til staðar og fengu fyrirtæki á borð við Mentor og Allergan leyfi til að selja þá gegn því að gerðar yrðu rannsóknir til að minnsta kosti 10 ára. Þátttakendur rannsóknanna áttu einnig að hafa haft brjóstapúða til lengri tíma, helst í 10 ár. FDA varaði við því að brjóstapúðum gætu fylgt ýmiss vandamál og hvöttu konur til að láta mynda brjóst sín á nokkurra ára fresti og þannig kanna ástand púðanna (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).

Í Evrópu stóðu málin svo að árið 1991 var sett á laggirnar fyrirtækið Poly Implant Prothése (PIP). PIP framleiddi brjóstapúða en höfðu þeir púðar ekki verið samþykktir af Evrópskri stofnun í líkingu við Matvæla- og Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna. Líkt og Dow Corning, varð PIP að lokum gjaldþrota vegna fjölda málsókna á hendur þeim. Fyrirtækið náði þó á níu árum, eða frá 2001 til 2010, að selja um hundrað þúsund brjóstapúða sem notaðir voru víðsvegar um Evrópu og þá þar á meðal á Íslandi. PIP brjóstapúðar voru gerðir úr einhvers konar iðnaðarsílikoni og voru 500% meiri líkur á að þeir myndu leka eða rifna í samanburði við aðra sambærilega brjóstapúða. Veikindi fóru að bera á sér hjá mörgum þeirra kvenna sem höfðu fengið PIP brjóstapúða og mátti síðar rekja andlát einhverra til þeirra. Þær sem létust höfðu fengið alvarleg viðbrögð við því eitri sem lak í líkama þeirra úr þeim. Einnig voru einhver tilfelli brjóstakrabbameins rakin til þessara púða (Anonymous, e.d.c.). Þessi tegund púða er sú sem greinarhöfundur fékk í sinni fyrstu brjóstaaðgerð árið 2004.

Árið 2005 fer svo FDA í Bandaríkjunum að skoða þriggja ára rannsóknir tveggja brjóstapúðaframleiðenda. Þeir framleiðendur sem um ræðir voru Mentor og Allergan. FDA þótti þessar þriggja ára rannsóknirnar ekki skila af sér áreiðanlegum niðurstöðum né sýna fram á öryggi brjóstapúða svo þeir settu kröfur á, eins og fram kom hér fyrir ofan, að gerðar yrðu í það minnsta rannsóknir til 10 ára (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).

Seinna sama ár hóf FDA frekari athugun á starfsemi Mentors og ræddi þar á meðal við fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins. Í ljós kom að starfsmenn hefðu verið beðnir um af yfirmönnum sínum að farga gögnum sem sýndu fram á að fjöldinn allur af Mentor púðum láku/mynduðu göt og að í einhverjum púðum hefðu fundist flær. Þrátt fyrir þetta samþykkti FDA í febrúar 2006 notkun sílikonbrjóstapúða frá Mentor og Allergan og sögðu að þeir væru sæmilega öryggir konum sem hefðu náð 22 ára aldri. Skilyrði um gerð langtímarannsókna var enn til staðar og bættust önnur skilyrði af hálfu FDA einnig við. Þau voru að til að mega selja brjóstapúða þurftu Mentor og Allergan að framkvæma rannsóknir sem næðu til:
• Að minnsta kosti 10 ára
• Að minnsta kosti 40.000 kvenna
• Kvenna sem væru búnar að hafa brjóstapúða í mörg ár, helst þá í 10 ár (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).

Yrðu þessi skilyrði uppfyllt taldi FDA að hægt væri að meta langtímaáhrif púðanna á líkama kvenna. Taka má aftur fram að þær langtímarannsóknir sem gerðar hafa verið á brjóstapúðum og áhrif þeirra á líkama kvenna hafa nær allar verið kostaðar af framleiðendum á borð við Dow Corning og niðurstöður hagræddar framleiðendum í vil. Einungis má finna örfáar langtímarannsóknir sem hafa ekki verið kostaðar af framleiðendum, en fer greinarhöfundur frekar í þær neðar í skjalinu. Mentor og Allergan hagræddu einnig sínum niðurstöðum sem þeir skiluðu svo inn til FDA í febrúar 2011. Niðurstöðunum var hagrætt meðal annars með því að:
• Henda þeim konum út úr rannsókninni sem tilkynntu veikindi og vandkvæði eftir ígræðslu púðanna
• Henda þeim konum út úr rannsókninni sem sögðust vilja losna við púðanna af einhverjum ástæðum
• Hafa að mestu þátttakendur sem höfðu haft púða í styttri tíma, eða frá nokkrum mánuðum og upp í nokkur ár. (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).

FDA taldi þetta rýra trúverðugleika niðurstaðna rannsóknanna en ákvað samt sem áður að láta það standa að brjóstapúðar væru sæmilegar öruggir konum sem höfðu náð 22 ára aldri (þá sílikon – 18 ára fyrir saltvatnspúða). Samþykki FDA þýddi samt ekki að þeir töldu brjóstapúða vera öryggir öllum né að þeir væru öryggir til lengri tíma. Búið var að sjá að flestir einstaklingar sem fengu sér púða færu að kljást við að minnsta kosti eitt heilsufarslegt vandamál um það bil þremur árum eftir ígræðslu brjóstapúða. Sóttvarnalæknar bentu einnig á að til að hægt væri að sjá orsakasamhengi milli brjóstapúða og krabbameins þyrftu rannsóknir að spanna í að minnsta kosti 10 ár en helst 15-20 ár eða meira. Slíkar langtímarannsóknir á brjóstapúðum voru varla til staðar (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).

Þær örfáu rannsóknir sem gerðar hafa verið á brjóstapúðum og tengsl þeirra við krabbamein og aðra sjúkdóma, og þá ekki kostaðar af brjóstapúðaframleiðendum, hafa því miður sýnt fram á ýmsa áhættuþætti sem fylgir ígræðslu brjóstapúða. Niðurstöður langtímarannsókna NCI eða National Cancer Institute sem og niðurstöður danskrar rannsóknar sem stóð yfir í um 19 ár sýndu fram á að konur sem væru búnar að vera með brjóstapúða í mörg ár voru líklegri til að deyja úr lungnakrabbameini, krabbameini í heila eða öðrum öndunarfærasjúkdómum en þeir einstaklingar sem hefðu farið í lýtaaðgerð án fyllinga á borð við brjóstapúða. Samfélagsleg sem og efnahagsleg staða allra þátttakenda var svipuð sem og heilsutengdir ávanar og því var ekki talið að niðurstöður væru skekktar vegna þess konar þátta. Þessar rannsóknir sýndu einnig fram á að konur með brjóstapúða væru 21% líklegri til að fá hin ýmsu krabbamein í samanburði við konur sem hefðu farið í lýtaaðgerð án ígræðslu brjóstapúða. Þar á meðal fyrrnefndar krabbameinstegundir sem og krabbamein í leghálsi og kynfærum. (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019; Clemens, Coroneos, Selber, Offidile & Butler, 2018).

Hvað varðar aðra sjúkdóma og önnur einkenni (sjá mynd fyrir neðan sem sýnir Breast Implant Illness einkenni), þá vildu Mentor og Allergan meina að konur væru að fá bandvefssjúkdóma og önnur líkamleg einkenni út af hækkandi aldri en ekki vegna áhrifa brjóstapúða á líkama þeirra. Rannsóknirnar sem þeir skiluðu inn til að sýna fram á að breytingin væri vegna aldurs en ekki út af brjóstapúðum náðu hins vegar einungis til tveggja ára. Fyrirtækin vildu semsagt meina að allar þær kvartanir sem þeim höfðu borist frá konum vegna einkenna á borð við síþreytu, bólgum í liðum, vöðvaverki, liðaverki og vefjagigt væri vegna hækkandi aldurs kvenna. Aldur þeirra hafði nú samt einungis hækkað um heil 2 ár (Zuckerman, Santoro, Moore & Faucette, 2019).


Síðasta rannsóknin sem ég vil nefna er rannsókn sem gerð var af lýtalækni og hans teymi. Niðurstöðurnar sýndu fram á að konur með ákveðna tegund brjóstapúða voru líklegri til að fá ýmsa sjálfsónæmissjúkdóma, gigt og sortuæxli. Þær voru einnig líklegri til þess að eignast fyrirbura, fæða andvana börn og eignast börn sem þyrftu á frekari umönnun lækna að halda eftir fæðingu. (Clemens, Coroneos, Selber, Offidile & Butler, 2018).

ALCL Eitlakrabbamein og brjóstapúðar
Í dag er búið að sanna og samþykkja orsakatengsl milli sílikonpúða og eitlakrabbameins er nefnist BIA-ALCL. Brjóstapúða má finna bæði með hrjúfri og sléttri sílikonskel. Þeir sem eru með hrjúfa skel eru sagðir valda frekar fyrrnefnda eitlakrabbameini. Talið er að það sé vegna þess að það kvarnast upp úr skelinni ýmiss efnasambönd sem fara svo í örvefinn sem líkaminn myndar utan um brjóstapúða við ígræðslu þeirra. Sílikonskel púðanna inniheldur nefninlega ýmiss eiturefni og er hún alltaf gerð úr þeim efnum og sílikoni hvort sem innihald sjálfra púðanna sé saltvatn eða sílikon.

Þau ALCL krabbameinstilfelli sem staðfest hafa verið eru aðallega hjá konum sem hafa verið með hrjúfa púða frá framleiðandanum Allergan. Á eftir Allergan koma næst flest staðfest tilfelli vegna hrjúfra púða frá Mentor og svo frá framleiðandanum Sientra. Þó greind tilfelli séu enn sem komið er ekkert rosalega mörg og ekkert hefur greinst hér á landi, hafa ýmsir læknar og þar á meðal lýtalæknar lýst yfir áhyggjum sínum á að ekki sé allt komið fram hvað þetta varðar. Rannsaka þurfi þessi mál enn frekar og líklegt sé að töluvert fleiri konur eiga eftir að greinast með tiltekið krabbamein. (FDA, 2019; Anonymous, 2020). Þær konur sem vilja láta fjarlægja púðanna til að fjarlægja þennan áhættuþátt og líkurnar á að greinast með ALCL eitlakrabbamein þurfa líka að láta fjarlægja allan örvef með, en meinið sjálft finnst í örvefnum en ekki brjóstapúðunum eða brjóstavefnum.


Mentor í eigu Johnson&Johnson
Hvað varðar umrædda púða sem greinarhöfundur lét fjarlægja núna þann 17. febrúar, þá voru það sílikonpúðar með hrjúfri skel framleiddir af Mentor. Mentor er í eigu Johnson&Johnson, en það fyrirtæki hefur síðustu ár verið lögsótt fjölmörgu sinnum. Það hefur verið lögsótt bæði af fjölmörgum einstaklingum víðsvegar um heim sem og ríkisstjórn Mexíkó. Ástæða lögsóknanna er að í vörum þeirra hafa fundist krabbameinsvaldandi efnasambönd sem hafa veikt bæði börn og fullorðna. Vörum á borð við barnapúður og barnasjampó (Westervelt, e.d.; Anonymous, 2019; Anonymous, 2018 & Hsu, 2020).

Eðlilega er því trúverðugleiki fyrirtækisins ekki mikill. Ef vörur þeirra eru skoðaðar í forritinu Thinkdirty, og eiturefnastuðull þeirra þar metinn, má sjá að flest allar Johnson&Johnson vörur fá 8 af 10 mögulegum í eiturefnastuðli. Vörurnar fá einnig rauða merkingu. Best er að nota vörur sem eru merktar með grænu og bera eiturefnastuðul frá 0-3. Vörur frá Johnson &Johnson ætti því að forðast að nota, á börn sem og fullorðna. Hvað varðar Mentor brjóstapúðanna frá Johnson&Johnson telur greinarhöfundur einnig að best yrði að forðast að láta græða þá í sig sem og auðvitað aðra brjóstapúða. Af hverju ætti fyrirtækið sem setur eitruð efnasambönd í vörur ætlaðar börnum ekki að gera hið sama með vörur ætlaðar fullorðnum?

Mentor hefur einnig, eins og áður hefur komið fram, ekki sýnt fram á öryggi brjóstapúða. Fyrir fólk sem nennir að grafa nógu mikið er margt hægt að finna. Í gögnum á heimasíðu Mentors má meðal annars sjá hluta af þeim efnasamböndum sem þeirra brjóstapúðar eru gerðir úr (sjá mynd fyrir neðan). Þau efnasambönd eru meðal annars arsenic, nickel, cobalt, lead, mercury, platinum, titanium. Greinarhöfundur er til dæmis með nickel ofnæmi og getur ekki gengið með skart sem inniheldur nickel. Aldrei hefði hann tekið áhættuna á að ígræða í sig nálægt hjarta og lungum brjóstapúða með nickeli hefði þessi efnasambönd verið honum kunnug.


Haldi maður áfram að grafa á heimasíðu Mentors finnur maður í viðamiklum bækling lista yfir mögulega áhættuþætti sem fylgja ígræðslu brjóstapúðanna (sjá myndir).

Eins og mynd nr. 7 sýnir er möguleiki á að fá meðal annars kalkútfellingar, drep í geirvörtum, seinan gróanda, rýrnun á brjóstvef og vansköpun á brjóstvegg við ígræðslu brjóstapúða. Aðrir áhættuþættir eru svo meðal annars erfiðleikar með brjóstagjöf, ofholdgunarör, bólgur í líkama, vöðvarýrnun, náladofi, húðskemmdir, eitilfrumukrabbamein, mar, kölkun, meinvörp, roði í húð, umfram húð, vefjagigt, hnúðabólgur og blöðrur. Enn fremur geta einstaklingar sem hafa brjóstapúða misst fóstur, lent í því að brjóstapúðar færist úr stað, húð á skurðsvæði orðið ójöfn og herping orðið á brjóstapúðum sem orsakar svo hörð brjóst. Einnig er möguleiki á vandamálum á geirvörtusvæði, útbrotum í húð, að rifa myndist á púða og hann leki, breytingum í tilfinningum geirvartna og ójafnri húð á skurðsvæðum. Ekki má gleyma að þörf gæti orðið á fleiri aðgerðum eða að fjarlægja púða vegna vandamála, brjóstin gætu orðið óvenju viðkvæm, verkir komið eða opin sár myndast á brjóstum. Önnur óupptalin líkamleg vandkvæði sem geta komið er gigt, bandvefssjúkdómar, taugasjúkdómar eða einkenni þeirra, krabbamein, æxli í eitlum, sýkingar og vökvasöfnun í brjósti.

Það sem vekur athygli greinarhöfundar er að á heimasíðu sinni mælir Mentor frekar með ígræðslu sílikonpúða með hrjúfu yfirborði fremur en sléttu. Nú er búið að sýna að ALCL eitlakrabbamein hefur greinst hjá konum með hrjúfa sílikonpúða, þar á meðal frá Mentor. Þeir hins vegar mæla frekar með notkun þeirra því að þeir telja ólíklegra að konur fái tiltekið krabbamein heldur en aðra líkamlega kvilla sem geta fylgt þeim sléttu. Lýtalæknar og aðrir hafa samt sem áður tilgreint áhyggjur sínar vegna þessa krabbameins og talið að tilfellum eigi eftir að fjölga, að það sé ekki jafn sjaldgæft og talið er. Greinarhöfundur mælir því hvorki með hrjúfum eða sléttum púðum. Öruggast er að sleppa því að láta græða í sig brjóstapúða.

Gott er að taka fram að þær upplýsingar sem fram hafa komið um efnasambönd Mentor brjóstapúða, einkenni sem komið geta í kjölfar ígræðslu þeirra sem og mat Mentors á hrjúfum vs. sléttum brjóstapúðum má finna á þeirra eigin heimasíðu. Greinarhöfundur fann þær í alls konar bæklingum og ýmsum undirsíðum á heimasíðu framleiðandans. Mentor virðist ekki hafa miklar áhyggjur af ALCL eitlakrabbameininu eða öðrum veikindum tengdum púðunum, enda sérlega ánægðir með sínar vörur. Þeir halda því glaðir áfram að selja þær dýrum dómi til allra sem þær vilja.

Í upplýsingabækling Mentors sem gerður var til neytenda eru einungis tekin fram fjögur af öllum þeim vandkvæðum sem gætu fylgt ígræðslu púðanna. Þau fjögur atriði sem bæklingurinn nefnir er leki, vandamál við brjóstagjöf, herping púða/hörð brjóst sem og möguleiki á að einstaklingur með brjóstapúða gæti þurft að fara í fleiri aðgerðir vegna einhverra vandkvæða. Í bæklingnum kemur einni fram að konur þurfi að vera 22 ára til að fá sílikon brjóstapúða frá Mentor. Þessi bæklingur er svo til á íslensku (sjá mynd). Í þennan bækling vantar þó allar upplýsingar um önnur möguleg heilsutengd vandamál sem geta komið upp eftir ígræðsu brjóstapúða. Hann hrósar Mentor hástert og dásamar brjóstapúðanna þeirra og starfsemi. Greinarhöfundur hefur hér ofar sýnt aðra hlið framleiðandans, öllu verri en sú sem þeir stilla sjálfir upp.

Upplýsingaskortur af hálfu lækna og markmið greinarinnar
Allar þær íslensku konur sem ég hef rætt við síðustu mánuði og síðastliðið ár og voru eða eru með Mentor púða fengu aldrei að sjá þennan íslenska upplýsingabækling. Margar voru undir 22 ára aldri þegar þær fengu sína púða og enginn þeirra fékk að heyra að þær þyrftu að vera orðnar 22 ára til að mega fá sér þá. Engir áhættuþættir voru heldur nefndir nema þá kannski mögulega vandamál við brjóstagjöf og/eða í aðgerðinni sjálfri og út frá svæfingu. Allar konur fengu að heyra hins vegar hversu frábærir púðar þetta væru, gerðir til að endast alla ævi. Bestu púðarnir á markaðinum. Þeir myndu að öllu jöfnu hvorki rifna og/eða leka nema í örfáum einstökum tilfellum og væru fullkomlega öryggir (sjá myndir fyrir neðan sem sýna annað).

Greinarhöfundur hefur einnig verið dugleg að fylgjast með í erlendum spjallhópum og má segja að í öðrum löndum virðist þetta vera mjög svipað. Flest allar konur fá hvorki afhenta upplýsingabæklinga um brjóstapúða og framleiðendur þeirra, né er þeim sagt frá þessu aldurstakmarki. Yfirleitt eru einu mögulegu vandamálin sem nefnd eru þau sem gætu komið upp í aðgerð og/eða svæfingu. Þær konur sem spyrja út í möguleg veikindi tengd brjóstapúðum og þetta ALCL eitlakrabbamein fá annað hvort að heyra að þetta sé algjört rugl, að verið sé að gera alltof mikið úr þessu og að engar almennilegar rannsóknir staðfesti þetta. Þær eru meira segja hvattar til þess að hafa áfram þá púða sem hafa valdið hve flestum krabbameinstilfellum og einungis íhuga að láta að fjarlægja þá ef þær fara að fá einkenni ALCL eitlakrabbameins. Einmitt, best að fjarlægja þetta bara ef krabbameinið kemur en ekkert fyrr til að koma í veg fyrir það.

Þær sem eru nú þegar með púða og vilja láta fjarlægja þá vegna líkamlegra vandkvæða fá iðulega að heyra að þessi líkamlegu vandkvæði séu einungis í höfðinu þeirra og það sé í raun og veru ekkert að þeim. Þessir púðar séu fullkomlega öryggir, annars væru þeir jú aldrei leyfðir. En eins og sjá má á gögnum hér fyrir ofan þá hafa brjóstapúðar aldrei verið álitnir fullkomlega öryggir og aldrei hefur í raun og veru verið sannað að þeir séu það, þvert á móti. Frá upphafi hafa þeim fylgt ýmiss vandræði og heilsufarsleg vandamál. Konur sem hafa fengið púða ígrædda í sig hafa margar hverjar orðið mjög veikar og sumar látið lífið. Til eru mörg gögn sem staðfesta þetta.

Þær rannsóknir sem framleiðendur vilja meina að sýni fram á öryggi púðanna er eins og áður hefur komið fram, rannsóknir sem hafa verið hagræddar þeim í vil og rannsóknir kostaðar af þeim. Ef þetta væri einungis í höfðinu á konum þá væru ekki til margir hópar á samfélagsmiðlum með þúsundum kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera með brjóstapúða og sömu/svipuð heilsufarsleg vandamál. Sönnunin liggur í upplifun og líðan allra þessa kvenna og hvernig heilsa þeirra batnar til muna í flestum öllum tilfellum þegar púðarnir eru fjarlægðir. Það eru jú það sem rannsóknir eiga gera, rannsaka og kanna líkamlega og andlega líðan kvenna fyrir og eftir ígræðslu brjóstapúða og hvernig hún breytist eftir því sem árin líða. Ef svör kvenna við spurningum fyrir eigindlega rannsókn varpa ljósi á öryggi nú eða hættu brjóstapúða, þá eiga sögur og svör þeirra í umræðum á samfélagsmiðlum að gera það sama. Sem betur fer má þó einnig finna örfáar langtímarannsóknir sem staðfesta það sem allar þessar konur eru að upplifa, brjóstapúðar eru ekki öryggir og þeim geta fylgt ýmiss líkamlega vandkvæði. Þeim rannsóknum sem þá hafa ekki verið kostaðar af framleiðendum. Það fór greinarhöfundur yfir hér fyrir ofan.

Markmið mitt með þessari grein er því að gera öllum þeim sem áhuga hafa á ljóst hvernig brjóstapúðar voru í upphafi samþykktir, semsagt undir hvaða formerkjum og hvernig málin hafa þróast síðastliðna áratugi. Ég vil að konur geti verið nægilega upplýstar til að geta tekið vel ígrundaða ákvörðun út frá þeim upplýsingum sem finna má nú um brjóstapúða og áhrif þeirra á líkamann. Ég vil að þær sem eru nú þegar að glíma við alls konar óúskýrð veikindi geti mögulega fundið lausn á því hér. Ég vil bara að allir hafi þær upplýsingar við höndina sem þarf þegar tekin er ákvörðun annað hvort um ígræðslu brjóstapúða eða um fjarlægingu þeirra.

Ég vil að lokum líka taka fram að örvefur eyðist ekki. En það er eitt af því sem margir lýtalæknar sem ekki búa yfir þeirri færni til að ná púðum út með örvef eru að segja við konur, að hann eyðist bara (sjá myndir fyrir neðan af örvef sem var tekinn mörgum árum eftir að sjálfir púðarnir voru teknir). Margar konur sem hafa látið fjarlægja brjóstapúða en ekki örvef eru enn að kljást við ýmiss heilsufarsleg vandamál og eins og áður hefur komið fram greinist ALCL eitlakrabbameinið í sjálfum örvefnum. Það er því þeim til hagsbóta að láta fjarlægja hann með púðunum. Hins vegar veit greinarhöfundur um konur sem hafa einungis látið fjarlægja brjóstapúðanna og fengið heilsu sína aftur til baka. Það því að losna bara við púðana er alltaf jákvætt. Gott er þó að vita ávinninginn af því að láta fjarlægja bæði púða og örvef.

Að lokum set ég svo hér myndir af brjóstapúðum sem fjarlægðir hafa verið úr konum í gegnum árin. Þessar myndir geta verið fyrir suma ógeðfelldar og því mæli ég ekki með að skrolla niður fyrr en fólk gerir sér grein fyrir því. Þetta er bara til að sýna fólki enn fremur hvað getur gerst og hvernig púðarnir geta orðið eftir að hafa legið inn í líkama einstaklinga árum saman. Mynd af mínum brjóstapúðum og örvef má svo finna í þessari myndasyrpu. Sú mynd er með grænum dúk undir sjálfum púðunum.

Eva Björg Sigurðardóttir tók saman í febrúar 2020

Heimildaskrá
Anonymous. e.d.a. Breast Implant: History. Sótt 20. febrúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Breast_implant#19th_century
Anonymous. e.d.b. Dow Corning: Problems with Breast Implants. Sótt 20. febrúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Dow_Corning
Anonymous. e.d.c. Poly Implant Prothése. Sótt 20. febrúar 2020 af https://en.wikipedia.org/wiki/Poly_Implant_Proth%C3%A8se
Anonymous. e.d.d. An Emerging Malignancy: Cancer Linked to these Breast Implants No Longer Rare, Data Suggests. Sótt 20. Febrúar af https://www.cbc.ca/news/health/breast-implants-rare-1.5422457
Anonymous. 2018. Vissu Vel af Asbesti í Barnapúðrinu. Sótt 20. Febrúar af https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/12/14/vissu_vel_af_asbesti_i_barnapudrinu/
Anonymous. 2019. Asbestos Discovery Triggers Johnson&Johnson Baby Powder Recall in US. Sótt 20. febrúar af https://www.bbc.com/news/business-50101758
Chun, J. e.d. Breast Implant Removal. Sótt 20. febrúar 2020 af https://www.myplasticsurgery.com/breast/breast-implant-removal/
Clemens, M. W., Coroneos, C. J., Selber, J. C., Offidile, A. C. & Butler, C. E. 2018. Largest-Ever Study Shows Silicone Breast Implants Associated with Rare Diseases. Journal of Annals of Surgery. Sótt 20. febrúar 2020 af https://www.mdanderson.org/newsroom/largest-ever-study-shows-silicone-breast-implants-associated-with-rare-diseases.h00-159227301.html
FDA. 2013. Summary of Safety and Effectiveness Data. Sótt 20. febrúar 2020 af https://www.accessdata.fda.gov/cdrh_docs/pdf6/p060028b.pdf
FDA. 2019. Questions and Answers about Breast Implant Associated Anaplastic Large Cell Lymphoma (BIA-ALCL). Sótt 20. febrúar 2020 af https://www.fda.gov/medical-devices/breast-implants/questions-and-answers-about-breast-implant-associated-anaplastic-large-cell-lymphoma-bia-alcl
Headon, H., Kasem, A. & Mokbel, K. 2015. Capsular Contracture after Breast Augmentation: An Update for Clinical Practice. Sótt 20. febrúar 2020 af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4579163/
Hsu, T. 2020. Johnson&Johnson Sued Over Baby Powder by New Mexico. Sótt 20. febrúar 2020 af https://www.nytimes.com/2020/01/03/business/johnson-johnson-baby-powder-new-mexico-suit.html
Mentor Bæklingur. 2017. Brjóstastækkun með Mentor Brjóstapúðum. Sótt 20. febrúar 2020 af https://medor.is/wp-content/uploads/2018/06/Mentor-Augmentation-Baeklingur.pdf
Mentor. 2019. For Women Considering Breast Implants. Sótt 20. febrúar 2020 af http://synthes.vo.llnwd.net/o16/LLNWMB8/US%20Mobile/Synthes%20North%20America/Product%20Support%20Materials/Brochures/069435-190220%20ALCL%20Patient%20Information%20Brochure%20Update_NA_ISI%20Edit_FINAL_CA_Exp.%203.7.2021.pdf
Westervelt, A. e.d. As Report Reveals Toxic Ingredients in Baby Shampoo Johnson&Johnson Goes Public with Plans to Clean up Products. Sótt 20. Febrúar 2020 af https://www.forbes.com/sites/amywestervelt/2011/11/01/as-report-reveals-toxic-ingredients-in-baby-shampoo-johnson-johnson-goes-public-with-plans-to-clean-up-products/
Zuckerman, D., Santoro, E., Moore, E. & Faucette, J. 2019. Breast Implants: A Research and Regulatory Summary. National Center for Health Research. Sótt 20. Febrúar 2020 af http://www.center4research.org/breast-implants-research-regulatory-summary

Skoðið einnig Heilsukvillar kvenna hér á vefnum.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

Hómópatía á íslensku

Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.

Hómópatía á ensku

Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.

Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.