Bólur í andliti er mjög algengur húðkvilli. Bólur eru algengastar á unglingsárunum, en margir eiga við þennan kvilla langt fram á fullorðinsár.

Konur fá oft bólur vegna hormónabreytinga í líkamanum, fyrir tíðir, á meðgöngu og við að byrja á eða hætta notkun p-pillunnar.  Algengt er að karlmenn fái bólur undan rakstri og bólumyndun getur einnig átt sér stað við mikinn kulda, hita eða mengun.

Á unglingsárunum eykst framleiðsla líkamans á húðfitu í fitukirtlum. Við þessa auknu framleiðslu þrengjast op fitukirtlanna svo að erfiðara er fyrir líkamann að losa um húðfituna og þá geta fitukirtlarnir bólgnað og byrjað að mynda bólur. Í fyrstu myndast oftast viðkvæmir rauðir nabbar, sem verða síðan að bólum.

Raki, fita, olía og ýmsar snyrtivörur geta verið orsök þess að bólur myndist á húðinni og mikil streita getur einnig valdið húðútbrotum.

Bólur geta myndast vegna ónæmis og algengt er að þær myndist vegna mjólkuróþols. Brasaður, olíukenndur matur, sykur, sætindi og gosdrykkir geta verið varhugaverðir til neyslu hjá þeim sem hafa hrjúfa og bólótta húð. Sveppasýking getur einnig verið orsakavaldur að bólum og bólgukýlum.

Vítamín- eða steinefnaójafnvægi geta valdið húðkvillum.

Sinkskortur getur orðið til að bólur myndast, þá gæti verið gott að bæta því í mataræðið. Sink er helst að finna í lambakjöti, svínakjöti, hveitikími, ölgeri, eggjum, mest er þó af sinki í ostrum. Einnig er sink í lifur, hnetum og fræjum, t.d. graskersfræjum, einnig í sjávarfangi, sojabaunum og grænmeti.

A vítamín er gott við ýmsum húðvandamálum, eins og unglingabólum og ígerðum. Skortseinkenni geta verið þurrt hár og þurr húð, augnþurrkur og náttblinda. Önnur möguleg einkenni gætu verið ígerð í eyrum, svefnleysi, þreyta, sýkingar í húð, graftarbólur og sýkingar í öndunarvegi sem geta valdið tíðum kvefpestum. A vítamín fæst m.a. úr dýra- og fiskilifur, úr grænum og gulum ávöxtum og grænmeti. Má þar nefna apríkósur, gulrætur, aspas, spergilkál og spínat.

B vítamín og þá sérstaklega B6 vítamín vinnur gegn húðsjúkdómum og gelgjubólum, feitri húð og fleiri kvillum. Flestur matur inniheldur eitthvað af B6 vítamíni. Sú fæða sem ríkust er af því er ölger, gulrætur, kjúklingur, egg, fiskur, kjöt, baunir, spínat, sólblómafræ og valhnetur. Auk þess inniheldur avókadó, bananar, brokkolí, hýðishrísgrjón og önnur heilkorn, kál, kartöflur, sojabaunir og alfa alfa spírur B vítamín.

Hómópatískar remedíur geta gagnast mjög vel vegna bóluútbrota.

Kali bromatum,  Antimonium crudum, Asterias rubens, Belladonna, Natrum muriaticum, Nux vomica, Arsenicum iodatum, Causticum, Chelidonium majus, Graphites, Psorinum, Sabina, Calcarea phosphoricum, Thuja occidentalis, Ledum palustre, Nitricum acidum, Bovista og Tuberculinum eru allar remedíur sem gætu gagnast vel við bólum og húðkvillum, ásamt þeim sem nefndar eru hér að neðan með stuttri útskýringu.

Tekið skal fram að einungis fáar remedíur eru nefndar, af þeim fjölmörgu sem gætu átt við. Æskilegt er að leita aðstoðar hjá reyndum hómópata ef einkenni eru viðvarandi eða ef vandamálið er langvarandi.

Kali bichromicum getur átt við ef að bólurnar eru aðallega á enni, svartir fílapenslar og bólur eru á andliti, öxlum og bringu.

Pulsatilla getur reynst vel ef að bólurnar koma vegna hormónaójafnvægis. Algengt er að bólurnar verði fleiri og sýnilegri í kringum blæðingar.

Hepar sulphuris getur átt við ef bólurnar eru stórar og með greftri og mjög sárar viðkomu. Einnig  ef mikið er um svarta fílapensla á enninu.

Silica getur reynst vel ef bólur er margar með hvítum nöbbum og húðin er hrjúf.

Sulphur getur gagnast vel ef húðin er oft slæm. Hún er heit, rauð og mikill kláði er á bólusvæði, sérstaklega ef viðkomandi verður heitt.

Forðast ætti að nudda húðina, eða skrúbba, það getur aukið hættu á smiti og að húðin versni.

Varast að meðhöndla bólurnar of mikið og alls ekki kreista þær. Það gæti skilið eftir ör.

Sólarbirta getur haft góð áhrif á bólurnar tímabundið, en heldur þeim sjaldnast alveg niðri.

Mikilvægt er að borða hollt og fjölbreytt fæði, drekka mikið vatn og hreyfa sig reglulega. Almenn vellíðan eykur vellíðan í húðinni.

Svo eitt í blálokin:

Í stað þess að nota sterk efni á húðina til að sótthreinsa og draga úr óhreinindum á bólusvæðinu, gæti verið gott að blanda 2 matskeiðar af sítrónusafa í soðið vatn og þvo svæðið með sítrónublöndunni.

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

 

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is

www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.