Ímyndum okkur að líkami okkar sé hús og að það sé reykskynjari í húsinu. Ef reykur myndast inni í húsinu, fer reykskynjarinn í gang og gefur okkur tækifæri á því að kanna hvaðan reykurinn kemur og að slökkva eldinn, ef hann er til staðar, áður en að allt brennur til kaldra kola. Ef við gefum okkur ekki færi á að kanna, afhverju reykskynjarinn fór í gang eða ef við jafnvel tökum batteríin úr honum þar sem hann fer reglulega í gang, þá gæti farið illa.

Á svipaðan hátt segir líkaminn til um, ef að hann er ekki í jafnvægi, hann sendir út viðvaranir sem að við ættum alltaf að hlusta á. Þessar viðvaranir köllum við oftast einkenni. Ein af þessum viðvörunum kemur fram sem höfuðverkur. Ef við könnum ekki hvað veldur einkennunum (reyknum) og  tökum alltaf verkjatöflu, til að slá á þau, þá er það eins og að taka batteríin úr reykskynjaranum. Vandamálið eykst, orsökin fyrir höfuðverknum verður dýpri og hann getur orðið algengari og algengari.

Margvíslegar orsakir geta verið fyrir höfuðverkjum. Þeir geta komið við mikið stress, vegna ýmissa umhverfisþátta s.s. mengunar og efna sem notuð eru í kringum okkur og einnig vegna tilfinningalegs og andlegs ójafnvægis og vegna sveiflna í hormónakerfi líkamans.

Stundum er orsökin sú að of lítið súrefni eða blóð ná að flæða upp í höfuðið, sem gæti verið vegna slæmrar stöðu hálsliða, t.d. eftir slys. Eða um væri að ræða höfuðæxli, en sem betur fer er það sjaldgjæft.

Ein mjög algeng ástæða höfuðverkja eru þreytt augu. Hægt er að æfa augnvöðvana, með því að kreista fast saman augnlokin í nokkrar sekúndur eða blikka augunum rólega öðru hvoru og hjálpa þannig þreyttum augum að slaka á.

Þegar um síendurtekna höfuðverki er að ræða  þarf að athuga eftirfarandi:

  • Hvenær koma höfuðverkirnir?
  • Fylgja þeir tíðarhringnum?
  • Koma þeir alltaf á sama tíma, dags eða nætur?
  • Þarf að nota dökk sólgleraugu, í hvert sinn sem að farið er út í sól eða mikla birtu, til að koma í veg fyrir að höfuðverkir byrji?
  • Gæti verið að kjálkavöðvarnir væru ástæða höfuðverkjanna?
  • Kemur súkkulaðiát, rauðvínsdrykkja, sítrusávextir, MSG (monosodium glutamate) eða önnur matvæli höfuðverkjum af stað?

Það að staðsetja verkinn, finna einkenni hans og þann tíma sem verkurinn kemur á og dvelur við, getur hjálpað til við að finna út frá hvaða líffærakerfi eða tilfinningasvæði hann kemur.

Til að kanna hvort það séu kjálkavöðvarnir sem eru að plaga, settu þá litlu fingurna í sitthvort eyrað og opnaðu og lokaðu munninum hægt og rólega. Finndu hvort kjálkinn (endar hans liggja við eyrnaopin) opnast og lokast á sama tíma, án klikkhljóðs. Ef þú finnur að kjálkinn lokast ekki rétt, láttu þá kanna hvort um skakkt bit gæti verið að ræða.

Einnig getur hátt sýrustig í líkamanum haft mikið að segja, skoða þarf mataræðið vel og fylgjast með hvaða matvæli og drykkir, koma af stað höfuðverknum. Skolaðu kverkarnar öðru hvoru með volgu saltvatni og nuddaðu með fingurgómunum, tunguna og góminn, varlega með fínu sjávar- eða Himalayansalti, þetta hefur áhrif á blóðrásina og lagar sýrustigið í munninum.

Drekkum vatn og meira vatn!
Þurrkur í líkamanum getur komið fram sem höfuðverkur. Við eigum besta vatn í heimi og eigum að njóta þess.

Enn einn möguleiki er að um sé að ræða “Verðlaunahöfuðverk” , þ.e.a.s. sá sem að hann hefur, “græðir” á því að hafa höfuðverk, hann getur t.d. farið heim úr vinnunni eða hann sleppur við einhver tiltekin verk eða ábyrgð og fær meiri athygli. Þetta er ekki óalgengt, en hér er nauðsynlegt að vinna með sál og tilfinningar, ekki síður en líkamleg einkenni. Eins þegar um er að ræða höfuðverki vegna innri átaka, t.d. fullkomnunaráráttu og sjálfsóánægju.

Ýmis jurtate, eins og bolli af piparmyntutei getur slakað á höfuðverkjum. Eins er inntaka á meltingarensímum með mat, oft mjög áhrifarík leið til að losa um höfuðverki.

Hægt er að þrýsta á miðjusvæðið á milli efri vararinnar og nefsins með kjúku vísifingurs. Þrýstið þétt og hættið um leið og þið finnið fyrir smá hita eða svitamyndun, því það þýðir að myndast hefur orkuflæði um líkamann.

Djúp öndun kemur líka af stað slökun, sem getur dregið úr höfuðverkjum sem myndast vegna spennu í líkamanum.

Hómópatía getur verið mjög hjálpleg vegna höfuðverkja af ýmsum toga. Mjög margar hómópatískar remedíur hafa sýnt fram á einstaklega góðan árangur til hjálpar. Heillavænlegast er að fá aðstoð hjá reyndum hómópata til að ná fram besta mögulega árangri við val á réttu remedíunni, en hér eru nefndar örfáar sem gætu átt við og örstutt einkennalýsing.

Arnica: Höfuðverkur sem byrjar eftir höfuðhögg.

Belladonna: Höfuðverkur sem kemur aðallega hægra megin og lýsir sér sem taktfastur, hamrandi verkur. Oft er andlitið heitt og rautt, en útlimir kaldir.

Bryonia: Höfuðverkur sem er hamrandi og kemur aðallega í kringum vinstra auga. Oft er verkur til staðar um leið og vaknað er, munnur er þurr og allt áreiti eykur á verkinn.

China: Höfuðverkur sem kemur vegna ofþornunar líkamans, blóðleysi getur verið til staðar og slappleiki.

Cocculus: Höfuðverkur eftir andvökur og kvíðatímabil. Svimi, ógleði og uppköst geta fylgt.

Gelsemium: Höfuðverkur, þrýstingur sem oft er lýst líkt og að þröngt band sé vafið um höfuðið. Sjón er óskýr, augnlok þung og mikil þreyta er til staðar.

Natrium muriaticum: Höfuðverkur er stöðugur og hamrandi, þrýstingur eins og höfuðið sé að springa. Oft eftir álag og áreynslu við lestur, eftir að vera í sól, í sorgarferli og í depurð.

Nux vomica: Höfuðverkur sem kemur eftir að hafa drukkið eða borðað of mikið, timburmenn.

Sepia: Höfuðverkur sem er aðallega í enni eða fyrir ofan vinstra auga. Ógleði og uppköst geta fylgt.

Það er um að gera að prófa sig áfram með hinar ýmsu leiðir sem í boði eru, en fyrir alla muni hlustið á viðvaranir líkamans og fylgið þeim eftir.

“Ekki taka batteríin úr reykskynjaranum”

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

 

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.