Morgunógleði er mjög algeng á meðgöngu og gerir oftast vart við sig frá 6. til 14. viku. Oft hrjáir ógleðin einungis á morgnana en þó er sumum konum óglatt af og til allan daginn. Eins eru konur sem finna fyrir ógleði meira eða minna alla meðgönguna. Ógleði er ekki hættulegt ástand nema þá ef konan ælir mikið og í langan tíma. Þá getur hættan verið að líkaminn þorni upp og í allra verstu tilfellum þarf að leggja konuna inn á sjúkrahús vegna ofþornunar.

Ekki er vitað nákvæmlega hvað það er sem veldur ógleði á meðgöngu, en hormónaójafnvægi í líkamanum er eitt af því sem hefur verið nefnt. Magn hormónanna Estrógen, Prógesterón og HCG hækkar gífurlega í upphafi meðgöngunnar og viðkvæmur líkaminn magnar upp til muna skynjun á bæði lykt og bragði.

Ekki er hægt að stjórna þessu hormónaflæði, en gott getur verið að næra lifrina og æxlunarfærin með góðum bætiefnum, hvílast vel, drekka mikið vatn og borða hollan og næringaríkan mat.

Ef um mikla ógleði er að ræða þarf að huga enn betur að mataræðinu.

  • Forðast skal að maginn verði alveg tómur.
  • Borða oft og lítið í einu.
  • Borða t.d. þurra kexköku um leið og farið er á fætur.
  • Forðast skal allan fituríkan, sætan og kaldan mat.
  • Taka inn B6-vítamín og zink.
  • Laufin í hindberjatei eru járnrík og reynast vel fyrir legið, geta dregið úr ógleði, aukið á mjólkurframleiðslu og jafnvel dregið úr verkjum í fæðingunni.
  • Aðrar tejurtir sem hafa reynst vel við ógleði eru t.d. engifer, mynta og regnálmur, sem einnig getur hjálpað við brjóstsviða.
  • Meltingarensím í tuggutöflum eftir mat hefur reynst sumum vel, þar sem hægir á meltingu og magasýruframleiðslu.
  • Grænir tedrykkir, alfalfa, kelp, spirulina og blaðgræna hjálpa meltingunni, jafna sýrustig líkamans og eru uppfullir af næringarefnum.

Sumar konur þurfa að taka allan sykur úr mataræðinu, líka ávaxtasykur og sleppa þá einnig að borða ávexti.

Sumar konur geta litlu eða engu haldið niðri og þá gæti verið gott ráð að frysta næringaríka drykki og te í klakapokum og sjúga svo klakann, þannig fæst næring í líkamann.

Meðganga er gleðitími og því er það kannski nokkuð ósanngjarnt fyrir konur að vera hálfslappar, óglatt og veikar fyrir á þessum mánuðum. Þá er gott að hafa í huga að viðkvæmni konunnar getur reynst góð fyrir ófætt barnið, einskonar sjálfsvörn fyrir óþoli gullmolans. Til að mynda geta konur sem aldrei hafa haft vandamál með mjólkurafurðir, alls ekki neytt þeirra á meðgöngunni. Síðar gæti komið í ljós að barnið hefur mjólkuróþol.

Ekki er óalgengt að konur missi fáein kíló á fyrsta hluta meðgöngunnar, á meðan ógleðin er sem verst og hún finnur út hvað það er sem hún þolir að borða og hvað ekki. Ef ógleðin lagast ekki á öðrum hluta meðgöngunnar, konan á enn erfitt með að borða og heldur áfram að léttast ætti hún að leita sér aðstoðar sem fyrst.

Þrýstu á hjartarstöðvar 6 punktinn sem er staðsettur þrjá sentimetrar frá úlnlið innanvert, beint upp frá löngutöng, í 2 mínútur til að létta á ógleði.

Nálastungur hafa reynst mörgum konum vel og hómópatía á til mild og árangursrík svör við meðgöngukvillum, þar með talið morgunógleði. Hér að neðan er stiklað á stóru um svör með hómópatískum remedíum.

Anacardium: Konan hefur tómatilfinningu í maganum. Það dregur verulega úr ógleðinni rétt á meðan hún borðar, en svo kemur ógleðin aftur.

Arsenicum album: Konan hefur stöðuga ógleðistilfinningu, er hrædd og forðast að kasta upp vegna hræðslu. Oft er konan einnig með niðurgang. Hún er þyrst, en vill einungis drekka litla sopa í einu og ekki ískalda drykki, hún sækir frekar í heita drykki. Kona sem þarf á Arsenicum album að halda er mjög eirðarlaus, þrátt fyrir að vera mjög þreytt.

Ipecacuanha: Konan er með stöðuga ógleði og ekkert dregur úr ógleðinni. Konunni líður ekkert betur þó hún kasti upp og ógleðin hverfur ekki þrátt fyrir að hún kasti upp. Konan er andfúl en tunga hennar samt sem áður rauð og hrein.

Nux vomica: Konan er með stöðuga ógleði sem lagast ef hún kastar upp, en versnar ef hún borðar. Hún er oftast verst á morgnanna og henni líður oft eins og hún sé með stein í maganum eftir máltíðir. Kona sem þarf á Nux vomica að halda er oft pirruð, kvíðin og ergileg.

Pulsatilla: Konunni líður ekki betur við að kasta upp þegar henni er óglatt. Henni líður betur í fersku lofti og sækir í að hafa glugga opna eða að vera útivið. Hún þolir illa feitan og þungan mat. Flest af því sem konuna langar að borða fer illa í hana og henna líður því verr eftir að hafa borðað. Kona sem þarf á Pulsatilla að halda er oft viðkvæm og lítil í sér.

Sepia: Konunni líður betur við að borða en hana langar ekki í mat. Öll lykt, hvort heldur er matarlykt eða önnur angan, veldur ógleði hjá konunni. Ógleðin er líkleg til að vera stöðug en er þó oftast verst seinnipart dags. Kona sem þarf á Sepia að halda er oft pirruð og afskiptalaus gagnvart sínum nánustu.

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.