Haustið er yndislegt og að margra mati fallegasti tími ársins. Þá skartar náttúran sínu fegursta með allri sinni mögnuðu litadýrð, uppskera sumarsins fyllir ísskápa landsmanna og berja- og sveppatínsla er orðinn fastur liður á mörgum heimilum.  Annað sem einkennir haustið er að hin  vanalega rútína hefst á ný, skólarnir byrja og regla færist á fjölskyldulífið.

Haustinu fylgja þó einnig miður skemmtilegir hlutir, má þar t.d. nefna að á hverju ári koma upp lúsafaraldrar sem eru einmitt algengir á haustin þegar skólarnir byrja.

Lúsin fer ekki í manngreinarálit og geta allir smitast bæði fullorðnir sem börn, hér tölum við um börnin, en einkenni og ráð eru þau sömu fyrir alla aldurshópa. Höfuðlúsin smitast aðallega við að höfuð snertast nógu lengi til þess að lúsin komist á milli, við að skiptast á höfuðfötum, hárburstum, koddum eða öðru slíku. Lúsin getur lifað utan líkamans í allt að 20 klukkustundir, en hún verður þó fljótt veikburða.

Höfuðlúsin er örsmá, en þó sjáanleg, hún er 2-4 mm að stærð og yfirleitt brún- eða gráleit. Það getur verið erfitt að koma auga á hana þar sem hún er oft samlit hörundinu og hún forðast ljós. Lýsnar eru fullvaxnar á 8 – 10 dögum, þá verpa þær eggjum sem kallast nit og límir nitin sig fasta við hárið niðri við hársvörðinn. Nitin er um millimetri að stærð og hún líkist helst silfruðum hnúð á hárinu. Hún finnst helst í hnakka eða á bak við eyrun og sést oft betur en lúsin sjálf.

Einkenni þess að lús sé til staðar er kláði sem kemur eftir að lúsin hefur sogið blóð úr hársverðinum. Þegar lúsin sýgur notar hún deyfiefni sem gerir það að verkum að ekkert finnst, en óþægindin koma síðar. Talið er að einungis einn af hverjum þremur finni fyrir kláða og þess vegna getur lúsin oft leynst í hárinu í langan tíma án þess að nokkurn gruni neitt.

Til að fyrirbyggja að barn þitt fái lús getur verið gott að nota Tea tree sjampó þegar faraldur gengur yfir í leikskóla eða skóla. Hægt er að kaupa tilbúið sjampó eða blanda Tea tree kjarnaolíu út í venjulegt milt sjampó. Einnig getur verið ráð að barnið sé með buff á höfðinu, til að fyrirbyggja snertingu.

Ef lús hefur gert sig heimakomna er gott að bera eplaedik í hárið og láta ligga í 20-30 mínútur. Það mýkir upp nitina og er nánast það eina sem kemst nálægt því að drepa hana. Eplaedikið auðveldar að greiða nitina úr hárinu.

Einnig er fáanlegur lúsabani sem er rafknúinn kambur.  Þegar faraldur kemur upp er auðvelt að renna kambinum í gegnum hárið á börnunum við og við til að fylgjast með og grípa lúsina áður en hún nær að verpa. Kamburinn drepur lúsina en ekki nitina, ef lús finnst er kamburinn notaður reglulega á meðan nitin er að klekjast út til að ná öllu.

Hér eru nefndar 2 hómópatískar remedíur sem gætu átt við einkenni sem geta komið fram þegar lús hefur gert sig heimakomna.

 

Natrum muriaticum: Gæti átt við ef barnið er með olíukenndan hársvörð, oft er einnig flasa til staðar. Útbrot geta myndast í hárlínunni eða á enni, með miklum kláða. Barn sem þarf á Natrum muriaticum að halda er viðkvæmt, ábyrgðarfullt og auðsæranlegt. Barninu líður betur við ferskt loft, við hvíld og fyrir morgunmat, en verr eftir að borða á morgnana, í sól og hita og við tilfinningalegt áreiti. Barnið vill vera vel greitt og sækir í að greiða sér.

Staphysagria: Gæti átt við ef barnið finnur fyrir stanslausum kláða í hársverði og finnur mikla þörf fyrir að klóra sér eða nudda hársvörð sökum kláða. Hár og hársvörður getur virst skítugt. Barnið er óviljugt til að láta skoða á sér hársvörðinn og verður reitt eða mjög pirrað. Barnið vill síður snertingu, því líður betur eftir svefn og verr á nóttunni.

Hér er hægt að sjá gott myndband um lús frá Doktor.is

Nánari umfjöllun er að finna í bókinni Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, hægt er nálgast bókina í vefsölu www.htveir.is

 

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is

www.facebook.com/HeildraenHeilsa.h2

 

2 Responses to Lús á haustin

 1. Einar Ólafsson says:

  Finn á síðu ykkar rafknúinn lúsakamb. Hvar fæst hann?. Dóttir mín er með tvíbura á leikskóla í Danmörku og þar kemur nokkuð oft upp lús. Með fyrrifram þökk, Einar

 2. admin says:

  Sæll Einar – takk fyrir fyrirspurnina.
  Ég fékk minn á sínum tíma í Heilsuhorninu á Glerártorgi – fyrrverandi eigandi þess fyrirtækis flutti þá inn sjálfur. Nú veit ég ekki hvort að núverandi eigendur eru enn með þessa frábæru lúsabana, en þú gætir hringt í Heilsuhúsið Glerártorgi 462 1889 og fengið upplýsingar hvort svo sé.
  Hef einnig heyrt af því að Elko selji rafknúna lúsabana en þekki ekki virkni þeirra persónulega, en alveg þess virði að skoða þá.
  Kærar kveðjur með von um að þú getir nýtt þér upplýsingarnar,
  Guðný Ósk
  Heildræn heilsa ehf.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.