bakverkirVið þekkjum það langflest að hafa upplifað verki. Þeir geta verið margskonar og af mismunandi ástæðum. Verkir eru aðferð líkamans til að láta vita ef eitthvað er að, ójafnvægi verður á eðlilegri líkamsstarfsemi og líkaminn lætur vita af sér með því að senda boð með sársaukataugum til heilans og getur þá gert viðeigandi ráðstafanir til að leiðrétta það sem farið hefur úrskeiðis.

Við mannfólkið upplifum verki á mjög mismunandi hátt og er oft talað um að við höfum mismunandi sársaukaþröskuld. Sumir geta afborið mikla og jafnvel langvarandi verki án þess að bugast, á meðan aðrir mega ekki finna til sársauka án þess að allt umhverfi þeirra þjáist með þeim. Það er margt sem getur skipt máli hvernig við upplifum verki og má þar t.d. nefna skapgerðareinkenni einstaklingsins. Einnig skiptir andlegt og líkamlegt ástand miklu máli, sem og næringarástand og þreyta.

Þegar notuð er hómópatía er mikilvægt að greina hvers eðlis verkurinn er og einnig það sem einkennir verkinn. Til að mynda er staðsetning hans, leiðni verksins, eðli hans og tímasetning mikilvægar upplýsingar. Einnig er mikilvægt að skoða allt það sem kann að fylgja verknum og þær aðstæður sem gera verkinn betri eða verri.

 

Verkjum er lýst með margskonar hætti, notuð eru orð eins og stingandi, skerandi, skjótandi, brennandi, leiðandi, krampaverkur, sláttarverkur, ásamt ýmsum fleiri lýsandi orðum. Sumir verkir eru stöðugir, aðrir koma og fara, þeir geta verið vægir, óbærilegir og allt þar á milli.

 

Staðsetning er oftast þar sem verkurinn er upprunninn, en hann getur sýnt sig annars staðar á líkamanum. Sem dæmi má nefna að verkur frá bólgnum botnlanga byrjar gjarnan nálægt nafla, en færist svo að kviðarholi, hægra megin, þar sem botnlanginn er staðsettur. Stundum er staðsetning verks greinilega afmörkuð, en einnig getur hann verið dreifður yfir stórt svæði.

Leiðni verks getur verið með ýmsu móti, hjartaverkur er t.d. oftast staðsettur undir bringubeini en getur leitt upp í háls, tennur og neðri kjálka eða út í handlegg. Verkir vegna nýrnasteina er oftast staðsettur í síðunni en getur leitt niður í þvagblöðru, nára eða ytri kynfæri.

Tímasetning verkjanna getur skipt máli, eru þeir verstir á nóttunni, á morgnana eða á öðrum tíma sólarhringsins. Sumir verkir byrja eða versna við hreyfingu, máltíðir, vissar fæðutegundir, áreynslu eða kulda og á sama hátt geta verkir lagast eða horfið við hreyfingu eða hvíld.

Oft eru önnur einkenni sem fylgja verkjum. Mikilvægt er að fylgjast vel með slíkum einkennum þar sem þau geta gefið vísbendingar um hvað hrjáir líkamann. Hiti og roði á verkjasvæði benda gjarnan til sýkingar og erfiðleikar við öndun fylgir oft hjartaverk, ógleði og uppköst geta fylgt mjög miklum verkjum t.d. ef um nýrnasteina eða gallsteina er að ræða.

 

Hómópatískar remedíur hafa reynst mörgum gríðarlega vel í verkjaferli. Til að geta á sem bestan hátt fundið réttustu remedíuna sem hentar hverju tilfelli fyrir sig er mikilvægt að fá skýra lýsingu á ástandi einstaklingsins og skoða alla ofangreinda þætti með tilliti til staðsetningu og eðli verkjanna.

 

Hér stiklum við á stóru og nefnum nokkrar remedíur og einkenni þeirra.

ACONITUM verkur kemur skyndilega, er ofsafenginn og lýsir sér sem skjótandi, skerandi eða rífandi. Brennandi verkur með slætti.

APIS verkur er stingandi og sviðatilfinning er á verkjasvæðinu líkt og heitar nálar stingist í líkamann. Verkir geta skyndilega færst úr stað og komið fram annars staðar á líkamanum. Hefur reynst vel við verkjum í hnjám og öxlum.

ARNICA er ávallt fyrsta remedía við öllum áverkum, hún dregur úr verkjum, mari og bólgum. Einstaklingur getur fundið sára verki um allan líkama og hann er aumur viðkomu. Hann lætur oft sem ekkert sé að, en er mjög eirðarlaus og vill síður að hann sé snertur og segir að „allt sé í lagi“ þó greinilegt sé að svo er ekki. Mikil viðkvæmni er til staðar ef legið er á verkjasvæði. ARNICA er tilvalin til að aðstoða líkamann eftir álag, t.d. eftir garðvinnu, golf og ómissandi í fjallgöngur og langar göngur.

ARSENICUM verkur er brennandi, skjótandi, rífandi, viðkomandi er kalt og jafnvel skjálfandi vegna kuldahrolls. Hefur reynst vel við Þursabiti sem byrjar eftir vinnu í kulda og/eða raka. Verkur byrjar skyndilega, oft á nóttunni. Verkurinn er brennandi líkt og eldur kraumi með skjótandi pílum á verkjasvæði, verkur kemur og fer.

BELLADONNA verkur er skyndilegur og ofsafenginn, ákafur sláttarverkur sem byrjar gjarnan eftir útiveru í sól og hita. Verkurinn er stingandi eins og heitum hníf sé stungið á verkjasvæðið. Remedían hefur reynst vel við höfuðverkjum sem byrja skyndilega, með miklum slætti og þrýstingi í enni, líkt og höfuð sé við það að springa.

BRYONIA verkur er viðvarandi og verri við allt áreiti, hljóð, ljós og hreyfingu. Höfuðverkur byrjar um leið og viðkomandi vaknar á morgnana, við það eitt að opna augun og eykst eftir því sem líður á daginn. Höfuðið er þungt og tilfinning um að það sé að springa. Verkur er stingandi, skerandi í hnakka, enni, kinnum og augum og dreifist um allan líkama. Stirðleiki er í hálsi, spenna á hnakkasvæði og mikill þrýstingur á heilasvæði ef viðkomandi hallar sér fram. Verkur getur byrjað smám saman eða skyndilega (meiðsli / beinbrot).

CAUSTICUM verkir eru rífandi, sárir og brennandi, oft í liðum og beinum. Mikil eymsli ef legið er á verkjasvæði og tilfinning um að um að sé brotinn. Spenna er í hálsi og verkur við að beygja höfuð aftur, en betra við að halla höfði fram. Eymsli og leiðandi verkur í rófubeini. Þursabit, verri við að liggja á bakinu og við að hósta, bólgur í mjöðmum með leiðandi verk niður í fót eða í kvið.

CHAMOMILLA verkir er mjög ákafir, rífandi, stingandi og byrja oft eftir að viðkomandi hefur orðið reiður. Mjóbaksverkir leiða fram í kvið og legsvæði kvenna, sem eru verri við að beygja sig fram, við að liggja og yfir blæðingatímabilið. Mikil eymsli, oft verri á næturnar og viðkomandi verður að fara framúr rúmi og ganga um. Sársauki í spjaldbeini sem leiðir niður í læri og í kvið, verri á nóttinni og á blæðingum. Þursabit, rífandi sársauki frá rassvöðum niður fætur, krampar, stirðleiki, máttleysi og þyngsli, verri við að standa upp og að teygja sig. Verkir í mjöðmum verri á nóttunni og við að liggja á gagnstæðri hlið með miklum stífleika í lærum. Verkir í hnjám og kálfum verða betri við að draga fætur upp og að sér. Krampar í fótum og smellir í hnjáliðum, verkir eru verri við hreyfingu. Verkir í öxlum og efri útlimum með doðatilfinningu niður handleggi.

HYPERICUM verkir eru skjótandi og leiðandi líkt og rafbylgjur, með betri líðan ef nuddað er létt yfir verkjasvæðið, en verri við minnstu hreyfingu. Vísbending um notkun HYPERICUM er einnig að finna ef verkir virðast MEIRI en áverkinn gefur tilefni til. Remedían á því vel við ef til koma áverkar eða högg á taugasvæðum, eins og á tær, fingur, rófubein eða í munni líkt og við tannviðgerðir.

LEDUM verkir eru rífandi, stingandi og sárir, þrýstingur er á verkjasvæði. Getur reynst vel við gigt og þvagsýrugigt sem er verri við hita, í heitu rúmi og verra við kalda bakstra og í köldu baði. Liðir eru bólgnir en kaldir. Stungusár, t.d. eftir að stíga á nagla. Ledum hefur einnig reynst vel við liðbólgum í öxlum, olnbogum, höndum, mjöðmum, hnjám, ökklum, fótum og hælum. Sársauki leiðir upp á við og er verri við hreyfingu. Bjúgur á fótum upp að hné og ökklar togna auðveldlega.

RUTA verkir lýsa sér sem eymsli eða mar um allan líkamann. Einnig getur sársauki lýst sér eins og líkamspartur sé brotinn. Verkir í hryggjasúlu má líkja við eymsli, líkt og eftir fall á bakið. Ruta hefur áhrif á allt brjósk, bein og beinhimnur líkamans. Hrygginn, hálssvæði, axlir únliði, olnboga, hné, ökkla og fætur. RUTA hefur reynst stórkostlega vel við golfaraolnboga og tennisolnboga.

SEPIA hefur reynst gríðarlega vel við „hormónatengdum verkjum“, svo sem bakverkjum á meðgöngu, grindargliðnun, krampaverkjum við blæðingar og hverskonar verkjum sem tengjast hormónasveiflum líkamans.

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is
Heildræn heilsa – htveir á Facebook

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.