Hollar og bragðgóðar

Hollar og bragðgóðar

Hnetur og möndlur eru bragðgóðar og mjög hollar. Þær innihalda mjög mikið prótein og ættu að vera hluti af daglegu fæði okkar. Einnig innihalda þær mikið af E-vítamíni, fólínsýru, magnesíum, kopar, trefjum og mikið af andoxunarefnum. Stútfullar af næringarefnum.

Góðu fitusýrurnar í hnetunum hafa verið mikið rannsakaðar og hefur komið í ljós að þær geti dregið úr áhættu á t.d. hjartasjúkdómum. Einnig hefur verið sýnt fram á að hæfilegt magn af hnetum daglega geti hjálpað til við að draga úr “slæma” kólesterólmagni líkamans og bæta upp “góða” kólesterólið. Einnig getur hnetuát hjálpað til við útvíkkun æðanna og komið í veg fyrir æðakölkun.

Rannsókn var gerð á heilsufari 86.016 hjúkrunarfræðinga, yfir 14 ára tímabil. Þessi rannsókn leyddi í ljós að þær sem að borðuðu lúkufylli af hnetum á dag, fimm daga vikunnar, drógu verulega úr líkum þess að fá hjartasjúkdóma. Tíðni dauðsfalla lækkaði um 35% í hópi þeirra hjúkrunarfræðinga sem borðuðu þetta magn af hnetum og einnig var líkamsvigt þeirra lægri en þeirra sem að ekki borðuðu hnetur.

Vegna trefjanna og fitunnar í hnetum verður til tilfinning um magafylli og sjaldnar er fundið fyrir svengd og þar af leiðandi minna borðað. Þannig geta hnetur hjálpað við þyngdartap, jafnframt því að fylla líkamann af næringu.

Varast ætti þó að borða of mikið af þeim daglega því hnetur innihalda hátt fituhlutfall. Ein lúkufylli af hnetum inniheldur u.þ.b. 160-200 kaloríur. Setjið hæfilegt magn í skál fyrir daginn, til að forðast að borða of mikið af þeim. Hneturnar eru svo bragðgóðar að auðvelt er að gleyma sér og halda áfram að maula þar til að pakkningin er búin.

Hér má sjá lista yfir kaloríufjölda ýmissa tegunda af hnetum:

Þurrristaðar hnetur, venjulegar (30 stk) 170
Þurrristaðar hnetur, ósaltaðar (30 stk) 160
Hunangsristaðar hnetur (30 stk) 200
Möndlur (24 stk) 160
Brasilíuhnetur (7 stk) 170
Cashewhnetur (20 stk) 170
Valhnetur (14 stk) 180
Pistasíuhnetur í skel (47 stk) 170
Pecanhnetur (20 helmingar) 190

 

 

Hnetur og möndlur eru mjög hollar og mikilvægar í mataræðinu, fyrir utan þá sem að eiga við hnetuofnæmi að stríða.

Reyna ætti að gera það að vana að borða handfylli af hnetum á hverjum degi. Góðu fitusýrurnar í þeim eru svo mikilvægar líkama okkar. Þær eru bragðgóðar og henta einkar vel í margskonar rétti.

Notið hnetur bæði heilar og einnig malaðar. Til að mala þær er gott að nota kvörn, líkt og notuð er við að mala kaffibaunir.

Endalausir möguleikar eru til að bæta hnetum og möndlum í mataræðið – nýtum hugmyndaflugið, en hér eru nokkrar hugmyndir:

  • Stráið heilum eða möluðum hnetum yfir bæði heita og kalda morgungrauta.
  • Setjið hnetu- eða möndluflögur út á hreint jógúrt.
  • Dreifið hnetum í salatið, heilum, möluðum, hráum eða þurrsteiktum.
  • Í stað brauðteninga má nota hnetur í salöt og súpur.
  • Pasta með hnetubitum er engu líkt.
  • Möndluspænir gerir gæfumuninn fyrir marga rétti, allt frá kjúklingaréttum til deserta.
  • Setjið hnetur og möndlur í brauðdeigið, skonsudeigið og allt það sem að þið eruð að baka.
  • Gufusoðið grænmeti bragðast vel með hnetu- og möndlubitum.
  • Allir ofnréttir s.s. grænmetisréttir, lasagna, kjúklinga- og fiskiréttir, bragðast mjög vel með hnetum og möndlum.

Til að þurrsteikja hneturnar skal annars vegar hita vel þurra pönnu og leyfa svo hnetunum að dansa á pönnunni þar til að þær byrja aðeins að gyllast, taka þær þá stax af, til að þær ofhitni ekki og góðu fitusýrurnar skemmist. Eins er hægt að hita bakarofninn vel og setja svo hneturnar inn í 5-10 mínútur, eða þar til þær byrja að gyllast.

Hnetuborgarar – uppskrift fyrir fjóra:

110 gr. blandaðar hnetur (t.d. cashewhnetur, furuhnetur,
brasilíuhnetur, möndlur, pekanhnetur)
4 msk. sólblómafræ
2 sneiðar speltbrauð án skorpu
1 saxaður laukur
2 tsk. oregano
2 tsk. dijon sinnep
1 egg
salt og nýmalaður pipar
kókosfita til steikingar

Malið hneturnar og fræin í matvinnsluvél eða kvörn.
Setjið brauðsneiðarnar samanvið og hrærið saman í matvinnsluvél.
Bætið svo út í lauk, oregano, sinnepi, eggi, salti og pipar.

Kælið blönduna í ½ klst.
Mótið borgara úr blöndunni og notið mjöl á hendurnar og diskinn til að þeir klístrist ekki eða festist saman.
Steikið á pönnu í ca 3 mín. á hvorri hlið.

Á hátíðarstundum má svo útbúa ómótstæðilegar kryddhnetur – Hér má finna uppskrift að slíkum, frábærar á aðventunni.

 

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is
Heildræn heilsa – htveir á Facebook

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.