SólardagurFlest okkar gleðjast þegar sólin skín sem skærast hér á landi. Eftir langan dimman vetur er svo notalegt þegar hitastig hækkar, sólin skín og við drögum fram stuttbuxur og hlýrabol. Sólardagarnir veita okkur gleði og við flykkjumst út á götur þar sem mannlífið iðar, setjumst út í gras eða komum okkur vel fyrir í sólstól á pallinum. Nú skal njóta og nýta sólargeislana, ná sér í nokkrar freknur og lit á kroppinn.

Við þurfum að fara varlega í sólinni og vera skynsöm í byrjun sumars. Ef við venjum ekki húðina við með stuttum sólböðum til að byrja með getum við ofgert húðinni og sólbrunnið. Flestar húðgerðir brenna ef húðin er berskjölduð fyrir óhóflegu magni af útfjólubláum geislum frá sólinni og eru sumir sérstaklega viðkvæmir og brenna mjög auðveldlega. Margir viðkvæmir einstaklingar eru gjarnir á að fá útbrot ef þeir eru í sól. Slík útbrot nefnast sólarofnæmi eða sólarexem.

Einkennin geta komið fram sem bleikar skellur eða rauðleit útbrot með blöðrum og hreistri.  Húðsvæðið sem sólin hefur skinið á verður blettótt og upphleypt, oft með miklum kláða og brunatilfinningu.

Talið er að sólarofnæmi sé algengara hjá hvítu fólki og að það liggi í erfðum. Þannig er það algengara í sumum fjölskyldum, frekar en öðrum. Einnig er sólarofnæmi algengara hjá þeim sem eru fyrir með annan húðsjúkdóm. Ýmis efni og efnasambönd geta framkallað ofnæmisútbrot ef sól skín beint á húð sem hefur komist í snertingu við t.d. ilmefni og ýmis hreinsiefni. Sum lyf geta einnig valdið því að húð verður viðkvæmari fyrir sólarljósi, brenni frekar og myndi útbrot.

Best er að vera skynsamur og aðlaga húðina smám saman. Flestir fá útbrotin við það að vera skyndilega og of lengi í mikilli sól. Því er gott að verja húðina með léttum klæðnaði eða sitja frekar í skugga, sérstaklega þegar sólin er hæst á lofti. Flestir fá betri líðan á einum til tveimur dögum.

Útivera í mikilli sól getur hæglega valdið sólbruna. Ef við gleymum okkur úti í góða veðrinu, þá eru ýmis ráð til að láta sér líða betur. Hér eru nefndar nokkrar náttúrulegar leiðir sem geta orðið að liði og allir ættu að geta nýtt sér.

Gott er að bera Aloe vera gel á sólbrennda húð, það kælir og dregur úr sviða. Best er gelið af ferskri plöntunni, þá er blað plöntunnar skorið eftir endilöngu, opnað og gelið skafið úr og borið á svæðið.

Kókosolía er frábær á húðina bæði fyrir og eftir sólböð.
Til að kæla húðina eftir sólbruna getur  einnig verið gott að leysa upp matarsóda í volgu vatni og setja á brenda svæðið. Einnig getur verið gott að nudda varlega brenda svæðið með eplaediki, endurtakið eftir þörfum.

Hér má finna frábæra uppskrift af heimagerðri sólarvörn:

50 gr shea smjör
65 gr kókosolía
25 gr zink-oxíð
4-5 dropa af lavender ilmkjarnaolíu

Bræðið shea smjör og kókosolíu saman í skál ofan í potti. Bætið zinkinu við og síðan dropunum. Allt hrært vel saman og síðan kælt í ísskáp í ca. klukkustund og sett í glerkrukku.

Ýmsar hómópatískar remedíur hafa reynst vel við sólbruna, sólarofnæmi og sólarexemi, hér nefnum við nokkrar og aðaleinkenni þeirra:

Arnica montana: Er ávallt fyrsta remedía við öllum áföllum, hún dregur úr verkjum og bólgum. Einstaklingurinn getur fundið sára verki um allan líkama og er aumur viðkomu. Hann getur látið sem ekkert sé að, en er mjög eirðarlaus. Honum líður verr við alla áreynslu og við stöðuga hreyfingu, en líður betur í fersku lofti.

Belladonna: Gæti átt við ef brunasvæði er mjög rautt, heitt og það er sláttarverkur á svæðinu. Mikill hiti er frá brunasvæðinu, sem finnst jafnvel án snertingar. Einstaklingurinn er órólegur, getur jafnvel verið með óráði og augasteinar hans eru útþandir. Honum líður betur við heita bakstra og við að halla höfði upp að einhverjum, en verr við minnstu hreyfingu.

Calendula: Er mjög græðandi og sótthreinsandi og getur dregið úr öramyndun. Brunasvæðið er hrjúft. Calendula áburður er einstaklega hentugur útvortis og einnig er gott að setja Calendula urtaveig í baðvatnið eða blanda í spreybrúsa og spreyja á brennda svæðið. Einstaklingnum líður betur við hita og verr við kulda og raka.

Cantharis: Gæti átt við ef blöðrur myndast á brunasvæði og sviði og kláði eru til staðar. Einstaklingnum líður betur við kalda bakstra og líður verr við allan hita.

Causticum: Gæti átt vel við í annars stigs bruna. Húðin er sprungin og kláði er á svæðinu. Viðkomandi er grátgjarn, viðkvæmur og er kalt. Honum líður betur við hita og við að hreyfa sig mjúklega.

Natrum muriaticum: Gæti átt vel við ef um sólbruna er að ræða, oft fær einstaklingurinn einnig höfuðverk eftir að vera í sól og hann vill ávallt vera með sólgleraugu. Honum líður betur við að baða sig í volgu vatni og við ferskt loft, en vill síður samúð.

Urtica urens: Gæti átt við ef stingandi verkir og sviði er á brunasvæðinu, ofsakláði er til staðar, svæðið flekkótt og blöðrur myndast á húðinni. Gæti átt við í fyrsta og annars stigs bruna. Einstaklingnum líður betur við að liggja, en verr við alla snertingu.

 

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

Guðný Ósk Diðriksdóttir tók saman.
www.htveir.is
www.heildraenheilsa.is
Heildræn heilsa – htveir á facebook
Guðný Ósk hómópati á facebook

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.