Hómópatía hefur, þrátt fyrir mikla útþenslu lyfjaframleiðslunnar sl. 200 ár, staðið fyrir sínu frá upphafi. Á átjándu öld þróaði Samuel Hahnemann, þýskur læknir og efnafræðingur hómópatíuna í þá átt sem hún er notuð enn þá dag í dag. Vegna mikils áhuga hans á mannúðlegum lækningum og umhyggju fyrir sjúklingum sínum féll hann fljótlega frá því að nota venjulegar lækningaraðferðir, en þær fólu t.d. í sér blóðtöku og notkun á verulega skaðlegum og eitruðum efnum svo sem kvikasilfurs. Eftir margra ára tilraunir uppgvötaði Hahnemann grundvallar lögmál hómópatíunnar og er það lögmál enn í fullu gildi. Remedíur er yfirleitt notaðar það mikið útþynntar að ekkert mólikúl af upprunalega efninu er eftir í henni, samt sem áður er hún virk og í raun þess kraftmeiri sem efnið er meira útþynnt. Þessi vinnsluaðferð er ástæðan fyrir því að sumir trúa því alls ekki að hómópatía geti virkað. Það sem er skemmtilegast við að gefa dýrum remedíur er að það sannar ekkert betur þá staðreynd að hómópatía virkar á líkamann og hugann án þess að það verði að „trúa“ á remedíurnar. Margir andstæðingar hómópatíu halda því nefnilega fram, að þegar fólki batni eftir remedíur,  sé það eingöngu huglæg sefjun.

Líkaminn er í raun fær um að lækna sig sjálfur, annars myndum við ekki lifa af vægt kvef, bein myndu ekki gróa og verkir ekki fara. Remedíur ýta við heilunarkrafti líkamans og lífsorku okkar.

Hómópatían hefur ekki einungis haldið sinni hlutdeild sem lækningaaðferð heldur hefur hún verið, sérstaklega síðastliðin 20 ár, að auka hlutdeild sína jafnt og þétt. Það er orðin krafa hjá fólki að geta nýtt sér náttúrulegar og skaðlausar aðferðir sér og dýrunum sínum til hagsbóta. Hómópatían uppfyllir þessar kröfur og er auk þess ódýr leið til að viðhalda heilsu.

Hómópatísk meðferð getur verið flókin og ekki á færi nema útlærðra hómópata, en hún er samt það auðveld að ef fólk hefur í huga grundvallarlögmál hennar, þ.e. að líkt lækni líkt, þá getur það notað hana sér og sínum til hjálpar. Hún getur aldrei skaðað, annað hvort virkar hún eða ekki.

Sömu grundvallarsjónarmiðin eru höfð að leiðarljósi til að finna remedíur fyrir dýr og menn, erfiðara getur samt verið að finna remedíu fyrir dýrin því þau geta ekki hjálpað til við valið með því að tjá sig um líðan sína. Því þarf hómópatinn eða eigandinn að vera vel vakandi fyrir öllum einkennum sem dýrið sýnir og breytingum frá eðlilegri hegðun.

Það geta allir notað hómópatíu, eingöngu þarf að vera ekki með neina ofurtrú og vita hvenær rétt er að leita til dýralækna, ekki láta hundinn þinn þjást að óþörfu. Verið heldur ekki of áköf í að setja hann á lyf, reynið að feta hinn vandrataða meðalveg. Hins vegar er alltaf hægt að nota remedíur með hefðbundinni meðferð til að flýta fyrir bata. Aðalatriðið er að gefa remedíuna eingöngu nægjanlegan oft til að koma af stað bata og svo hætta. Það verður að gæta þess vel að gefa ekki of mikið eða of lengi.

Flestar remedíurnar sem ég fjalla um eru gefnar í strykleikanum 30c, það er mjög misjafnt hvaða styrk er best að gefa og ekki á færi nema útlærðra hómópata að ákveða það og þá aðallega mesta styrkinn. Styrkur frá 6 – 30c er öruggur fyrir óvana að nota.

Þumalputtareglan er sú að 6c er gefið 3svar á dag í langan tíma eða þangað til bata er náð. Styrkleikinn 30c er notað 2 – 3svar á dag í nokkra daga, eða einu sinni á dag í langan tíma, t.d. mánuð. Hár styrkur er yfirleitt notaður í bráðatilfellum þar sem þarf að fá viðbrögð strax og dýrið er annars nokkuð heilbrigt. Langvarandi veikindi eru hins vegar meðhöndluð með lægri styrk í lengri tíma. Remedíur geymast lengi, ef þær eru geymdar við réttar aðstæður. Þær verður að geyma fjarri sólarljósi, sterkri lykt og helst á frekar köldum stað, kommóða fjarri rafmagnstækjum er t.d. hentugur geymslustaður.

Þegar einkenni eru skoðuð hjá hundum þarf að vera vel vakandi fyrir öllum smáatriðum, hvar vilja þeir liggja, á heitum stöðum eða köldum. Vilja þeir láta klappa sér eða forðast þeir snertingu, drekka þeir meira eða minna en venjulega, liggja þeir á þeirri hlið sem sársaukinn er, á hvaða tíma dagsins er hann verstur, byrjuðu veikindin snögglega eða hægt og rólega, hvers eðlis er útferðin, litur og áferð. Hundur sem þarf remedíuna Bryonia, liggur t.d. á þeim líkamshluta sem er verkjaður, vill ekki hreyfa sig og vill vera útaf fyrir sig. Hann sennilega velur líka að liggja á köldu gólfi, jafnvel þar sem er smá trekkur. Öll hegðun sem er frábrugðin venjulegri hegðun er mikils virði í leit að réttu remedíunni.

Til að  remedían virki sem best þarf hún að komast í snertingu við slímhúð, t.d. munnsins. Algengasta aðferðin er að setja beint á tunguna eða „í vör“. Hægt er að fá mismundandi stærðir af töflum og bestar fyrir dýrin eru agnarsmáar pillur sem leysast hratt upp og dýrið á ekki auðvelt með að setja út úr sér, þetta er nánast eins og duft. Remedíur í vökaformi er hægt að setja út í vatnskálina eða í neðri vörina.

Remedíur eru án aukaverkana, ef röng remedía er gefin verður einfaldlega enginn árangur, remedíur skal ekki gefa aftur og aftur ef það er ljóst að hún er ekki að virka.

Til að  fá ráðleggingar um fjölda skipta sem er viðeigandi í hverju tilfelli fyrir sig er best að ráðfæra sig við útlærðan hómópata.

Þar sem remedíur virka sem örvun á heilunarmátt líkamans koma þær af stað batanum og það á ekki að gefa remedíur lengur en þangað til það er sjáanlegt að bati er hafinn. Ef það verður bakslag þá er remedían gefin aftur. Þetta er hárfín orka sem ekki þarf að hamra á. Remedían heldur áfram að virka í líkamanum þó að gjöf hafi verið hætt.

Remedíur eru gerðar úr dýra-, jurta- og steinaríkinu og sá styrkleiki sem ég mæli með hér á eftir er eingöngu leiðbeinandi. Ef þú átt í erfiðleikum með að ákveða hvaða remedía á best við einkennin, hafðu þá þetta í huga:

Remedíur gerðar úr plönturíkinu virka best á fyrstu stigum sjúkdóms, áður en slím eða útferð myndast. Einkennin gætu kannski verið eingöngu hiti og slappleiki.

Remedíur gerðar úr steinaríkinu eiga vel við þegar útferð, slím og gröftur hefur myndast, t.d. gæti hentað vel að gefa fyrst Hepar Sulph en svo að fylgja eftir með djúpvirkandi remedíu líka úr steinaríkinu, Silicu, sem tekur í burtu allan örvef eða þykkildi sem eru eftir ígerðina.

 

Fyrsta hjálp – slys og sár


Aconite 30c
Hræðsla, áfall. Gott að gefa í upphafi til að róa dýrið, virkar best eftir því sem hún fer fyrr í hundinn. Þessi remedía getur líka komið í veg fyrir veikindi ef hún er gefin snemma, reyndar nota ég hana þá mest í 6c og gef ört fyrsta sólarhringinn.

Hundur sem þarf þessa remedíu virkar óstöðugur og höktir um, eða sem er jafn líklegt, að hann standi alveg kyrr, ofboðslega spenntur og bregst við tilraun til að snerta hann með mikilli hræðslu. Virkar best ef næst að gefa hana innan tveggja klukkustunda frá atburðinum. Það er best að nota hana í 30c eða jafnvel í 200 c í tilvikum sem þessum.

Arnica 30c – Mar, bólga, sár, áfall, hræðsla, ofþreyta, dregur úr blæðingu, kemur í veg fyrir drep og sýkingu í sárum. Arnica eyðir áfallinu úr líkama og huga eftir slys.

Sjúklingur sem þarf Arnicu er aumur viðkomu, líður eins og hann hafi orðið undir valtara, vill ekki láta koma við sig, á erfitt með að koma sér vel fyrir, „bælið er of hart“.

Í styrkleikanum 30c má gefa á 2 klst fresti, 3 sinnum. Í mjög alvarlegur tilvikum má gefa á 15 mínútna fresti þangað til dýrinu líður betur og sýnir minni einkenni um áfall eða hræðslu. Bati eftir uppskurð verður hraðari og betri ef einn skammtur er gefinn fyrir aðgerð.

Arnicu krem má ekki bera á opna húð, það kemur í veg fyrir að það grói, hins vegar er mjög gott að  bera Arnicukrem á mar og bólgur svo framarlega sem ekki er opið sár.

Calendula 6c – Öll sár, innvortis sem útvortis munu gróa hraðar og betur með Calendula. Í vökvaformi, tincturu, hreinsar hún sýktan vef og kemur af stað bata. Hana má setja útvortis á allskonar sár.

Gott er að gefa 6c, einn skammt 3svar á dag í 3 daga. Calendula-krem má bera á tvisvar á dag í viku eða þangað til sárið er gróið.

Hepar Sulph 6c, 30c – Vinnur gegn sýkinu í sárum og greftri eða útferð sem lyktar mjög illa, eins og gamall ostur. Hepar 6c hjálpar til við að hreinsa gröft úr sárum en hærri styrkur, s.s. 30c er notaður í byrjun til að hindra ígerð. Gott er að gefa nokkra skammta af Silica á eftir Hepar, sérstaklega ef sárið er lengi að gróa. Gefið Hepar 3svar á dag í allt að 3 daga.

Hypericum 200c – Meiðsl á  taugaendum, s.s. á loppum eða skotti. Mjög mikill sársauki. Gott ef hundur hefur klemmt sig eða skorið. Einnig vinnur það gegn ígerð í dýpri sárum og dregur úr sársauka. Munið eftir Hypericum í tilfellum eins og ef hundurinn stingur sig á gaddavír eða fær flís. Hyp 200 er gefin 3svar á dag í nokkra daga.

Ledum Pal 6c – Fyrir öll djúp stungusár, s.s. eftir flísar eða skordýrabit. Sárið er kalt viðkomu og sársaukinn minnkar við kaldan bakstur. Einkenni gætu verið að hundurinn liggur á köldum stöðum. Ledum kemur einnig í veg fyrir sýkingu.

Ledum 6c á fjögurra klst. fresti 4 sinnum. Má halda áfram að  gefa 3svar á dag í nokkra daga í viðbót ef þörf krefur. Má gefa með Hypericum eða enda meðferð með Hypericum, sem einnig dregur úr sársauka.

Silica 6c – Silica er þekkt fyrir að ýta öllum aðskotahlutum úr líkamanum. Hún hreinsar líka í burtu óhreinindi og aðskotahluti úr sárum, s.s. flísar. Hún dregur úr örmyndun og klárar græðingu sára þar sem hefur myndast kýli eða bólga sem er lengi að fara. Einnig dregur hún úr sýkingarhættu.

Silica 6c er gefin 3svar á dag í 5 daga.

Symhytum 6c – Notuð á brotin eða brákuð bein og dregur úr sársauka í beinum. Virkar líka vel á meiðsl á auga ef það hefur orðið vegna höggs.

Gefið  1 sinni á dag í allt að 3 vikur. Gott að gefa Arnicu með til að draga úr bólgu í aðliggjandi vefjum.

Carbo Veg 200c – „Líkuppvekjarinn“. Gott að gefa ef við komum að hundi sem er meðvitundarlaus, kaldur viðkomu og varla lífsmark með, sama hver ásæðan er.

Hundurinn er uppgefinn með bláleytan góm, þarfnast súrefnis. Kviður er uppblásin þar sem öll starfsemi líkamans er að hægast niður. Carbo Veg. dregur úr dauðaverkjum og hræðslu við að deyja.

Gefið  á 10 mín fresti þar til dýralæknir kemur, gott að fylgja eftir með Aconite 200.

Rescue Remedy Blómadropar – Þeir eru róandi og gott að nota þá með hómópata meðferð. Gagnlegir til að lífga við lífvana hvolpa, þá gefnir með Carbo Veg.


Meðganga og got

 

Sjálf hef ég aldrei gefið neitt á meðgöngu en hins vegar alltaf eftir got og stundum í goti.

Remedíur aðstoða á hinum ýmsu stigum meðgöngu, þær eru algjörlega öruggar í notkun en ef þið eruð í einhverjum vafa um notkun þeirra leitið þá til hómópata.

Ég vil hins vegar ekki nota remedíur nema full ástæða sé til þess. Allt inngrip í eðlilegt ferli tel ég vera óæskilegt.

Aconite 200c – Hræðsla og sársauki í hríðum. Gefið 1 skammt á hálftíma fresti eins lengi og ykkur finnst tíkin þurfa. Hættið gjöf um leið og þið sjáið bata.

Arnica 200c – Gott að  gefa einn skammt fyrir got og svo strax eftir got til að draga úr sársauka og flýta fyrir bata. Hún dregur úr blæðingu, mari og bólgum. Hún er bæði gagnleg fyrir hvolpa og tík og dregur úr líkum á sýkingu í kjölfar erfiðs gots. Gefið tíkinni  daglega í 3 daga eftir got.

Caulophyllum 30c – Eykur samdrátt legsins og slakar á leghálsinum. Dregur úr verkjum og auðveldar losun fylgjunnar.

Gefið  á 30 mínútna fresti 2 – 3 sinnum í hættuástandi, þ.e. ef hríðir hafa dottið niður. Ef allt virðist ætla að ganga vel og við erum að nota hana til að auðvelda tíkinni að gjóta þá er nóg að gefa hana 1 – 2 á meðan á goti stendur. Ég vil hins vegar ekki nota remedíur nema full ástæða sé til þess.

Pulsatilla 30c – Falskar hríðir eða hríðir sem byrja og stoppa svo. Hefur svipaða virkni og Caulophyllum. Í fölskum hríðum er nóg að gefa 1 – 3 skammta í einn dag. Ef hríðir byrja og stöðvast svo á að gefa skammt og bíða svo, ef ekkert gerist fljótlega skal gefa annan skammt. Annars á ekki að endurtaka nema ferlið endurtaki sig.

Sepia 30c – Framfallið leg. Þá skal gefa skammt 2var á dag í þrjá daga, en samt sem áður verður að fara með tíkina til læknis.

Fyrir tíkur sem eru ekki miklar mömmur og sinna hvolpunum ekki nógu vel er gott að gefa skammt af Sepiu 200c, bara að endurtaka ef þörf er á.


Hvolpar

 

Það er ómissandi að eiga remedíur þegar von er á goti.

Tungsten 30c eða Laurocerasus 200c eru báðað gagnlegar sem fyrsta hjálp þegar hvolpum vantar súrefni og þeir eiga í einhverjum erfiðleikum með að anda. Ég hef samt aldrei notað þessar remedíur heldur nota alltaf Carbo Veg og Rescue Remedy blómadropa.

Carbo Veg og Rescue Remedy nota ég fyrir lífvana hvolpa.

Gefið  á nokkurra mínútna fresti, eða jafnvel mun örar í tilfellum sem snúast um líf eða dauða, þangað til bati sést. Rescue Remedy má gefa eins oft og þörf er á.

Ant Tart 200c – Vökvi er fastur í lungum. Drukknunarástand. Gefið ört.


Mjólkurgjöf og júgurbólga

 

Urtica Urens 30c – Eykur mjólkurframleiðslu ef hún virðist ekki ætla að fara almennilega í gang. Gefið bara einn skammt til að ýta í gang.

Alfalfa 30 c – Eykur mjólkurframleiðslu, sérstaklega þar sem þörfin er mikil en mjólk mjög lítil eða enginn. Notið bara einn skammt, ef Urtica hefur ekki virkað.

Belladonna 30c – Skyndileg júgurbólga. Júgrað er mjög rautt og heitt, mjög aumt viðkomu og verra við gang. Gefið á 2 klst fresti þar til bati er sjáanlegur.

Bryonia 30c er líka hægt að gefa við júgurbólgu en þá er júgrað harðara viðkomu og tíkin vill alls ekki hreyfa sig.

Lac Caninum 30c – Má nota eftir got til að auka mjólk ef fyrri remedíur hafa ekki virkað. Þegar venja á hvolpana af spena þá má nota hana til að þurrka tíkina upp, notist þá í lágum styrk, 6c.

Ef um er að  ræða júgurbólgu þá skal gefa hana 3svar á dag í 3 daga. Einkennin eru þau að tíkin er verri við hreyfingu og júgrað er bólgið. Til að auka mjólk er hún gefin einu sinni á dag í 1 – 3 daga.

Phytolacca 30c – Brjóstvefurinn er harður og mjólkin kekkjótt. Bólgan er hnútótt, júgrað mjög aumt og bólgið.

Gefið  4 sinnum á dag þar til hún er betri. Ef hörðnunin versnar eða er lengi að fara skiptið þá yfir í Silicu eða gefið hana með.

Silica 30c – Meira notuð  ef júgurbólgan er langvarandi. Bólgan er farin, en eftir situr harður vefur og mjólkin er vond.
Hepar Sulph má nota til að hjálpa virkni Silicu ef mjólkin lyktar eins og gamall ostur.

Gefið  3svar á dag í 3 daga.

Inga Björk Gunnarsdóttir hómópati tók saman.
Greinin birtist fyrst þann 8.10.2006
á heimasíðunni www.sperdill.is

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku
Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.
Hómópatía á ensku
Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.
Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.