Að hlusta af athygli

Störfin mín sem djákna og sálgætis á fjölmennu hjúkrunarheimili felast fyrst og fremst í heimsóknum til heimilisfólks, viðtölum og samtali auk fastra liða eins og bænagjörða, helgistunda og hópavinnu. Þegar ég hitti samferðarfólk mitt spyr ég gjarnan; „hvernig líður þér?” Ég bíð eftir svari, oftast kemur það eftir íslensku aðferðinni; „þakka þér fyrir, bara vel.” Stundum læt ég ofangreint svar nægja en ekki alltaf vegna þess að í þeim tilfellum veit ég að viðmælanda mínum líður ekki vel en getur ekki eða kemur sér ekki að því að orða líðan sína. Samtalið er að miklu leyti komið undir því hvort ég hef sjálf næga þolinmæði, innsæi og tíma til að hlusta meðvitað á viðmælanda minn.

Kannski hefur þú, lesandi minn, lent í þeirri aðstöðu að vera spurð eða spurður þessarrar sömu spurningar og svarað í einlægni en séð hvernig augnaráð þeirrar manneskju sem spurði varð fjarrænt og þú vissir innra með þér að hún var alls ekki að hlusta. Hún var einungis uppfull af sjálfri sér. Svo stóðst þú þarna og blygðaðist þín fyrir að vera að bera þig upp við manneskju sem kærði sig í raun og veru ekkert um þig og þín málefni. Eða var það kannski þú sem spurðir og fékkst óþægilega nærgöngult svar sem þú ætlaðist ekki til að fá?

Virk hlustun

Aðstæður sem þessar eru ekki nýjar undir sólinni. Í Nýja testamentinu kemur fram að Jesús frá Nasaret varð oftar en einu sinni að áminna áheyrendur sína um að hlusta betur en þeir gerðu. Hann notaði innsæi sitt, fordómaleysi og þor til að spyrja samferðafólk sitt spurninga, oft óþægilegra spurninga, en hann gaf sér einnig tíma til að hlusta á svarið þegar það kom. Já, jafnvel Jesús Kristur lenti í þeim aðstæðum að ekki var hlustað á hann. Hann sagði ítrekað: „Hver sem eyru hefur, hann heyri” (Matt. 11.13). Það brann á honum að á hann væri hlustað.

Við sem ástundum kærleiksþjónustu (díakoníu), það er þjónustu við náungann byggða á kærleika Jesú Krists, eigum að vera bæði heyrendur og gerendur orðsins í samskiptum okkar við meðsystkini okkar. Að hlusta á þau af athygli, með opnum, fordómalausum huga, er grundvallarskilyrði, viljum við mæta þeim þar sem þau eru stödd hverju sinni.

Sr. Sigfinnur Þorleifsson sjúkrahúsprestur sagði eitt sinn í fyrirlestri um sálgæslu: „Við sem sinnum sálgæslu eigum að vera eins og asninn, með tvö stór eyru og lítinn munn. Ég datt nýlega niður á áhugaverðar greinar hins danska Michael Kold sem er þekktur NPL kennari og þjálfi (coach) í þeirri grein [1]. Hann kemst að svipaðri niðurstöðu og sálgætirinn þegar hann segir að við höfum einn munn en tvö eyru vegna þess að við eigum að nota eyrun tvisvar sinnum meira en munninn.[2]

Að mati Kold er mjög mikilvægt að hafa tvennt í huga þegar spurt er spurninga sem ætlað er að leiða til lausna fyrir einstaklinginn sem mætt er.

  • Í fyrsta lagi, er spurningum okkar svarað?
  • Í öðru lagi, hverju er svarað?

Kold er þeirrar skoðunar að fólk svari oft því sem það heldur að spurt sé um en ekki því sem spurt er um í raun og veru. Þess vegna álítur hann virka og meðvitaða hlustun nytsamlegt verkfæri sé óskað eftir sýnilegum, fljótvirkum og raunhæfum árangri í viðtölum. Kold bendir á að við hlustum á aðra með ýmsum hætti og nefnir þar fimm eftirfarandi leiðir:

  1. Þegar við hlustum með því í raun að hlusta ekki (selektiv lytning). Þegar við hlustum á þennan máta þá röðum við upplýsingunum meðvitað og ómeðvitað og veljum úr þeim þær upplýsingar sem við viljum taka við.
  2. Þegar við heyrum hvað sagt er (ekstern lytning). Við nemum boðskapinn sem felst í orðunum en höldum okkur ekki við hann. Ókosturinn við þessa aðferð er sá að viðmælanda okkar finnst stundum að við séum ekki til staðar í samtalinu.
  3. Þegar við höldum að við heyrum það sem sagt er (intern lytning). Flest okkar notum þessa hlustun. Þá hlustum við vissulega en um leið túlkum við boðskapinn sem felst í orðunum sem við heyrum. Kostur túlkunar er annars vegar, að þá eigum við alltaf svör við spurningum viðmælenda okkar, hins vegar er óskostur hennar sá að við heyrum aðeins það sem endurspeglar okkar eigin hugmyndir um lífið og tilveruna.
  4. Að vera til staðar í samtalinu– meðvituð hlustun (fokuseret lytning). Þá er athygli okkar á viðmælanda okkar um leið og við heyrum hvert einasta orð og þær setningar sem sagðar eru. Við að vera til staðar í samtalinu komumst við hjá því að túlka það sem við heyrum. Af því leiðir að við erum hlutlausari gagnvart skoðunum viðmælandans. Við kynnumst frekar einstaklingnum á bak við manneskjuna, orðfæri hennar, sannfæringu og lífsgildum. Á þennan hátt reynist auðveldara að byggja upp traust milli okkar og  viðmælandans. Í byrjun er oft erfitt að hlusta á margt í einu en það lærist.
  5. Virk hlustun á hinu ómeðvitaða sviði (intuitiv lytning). Þessi aðferð við hlustun skilur sig að nokkru leyti frá hinum fyrrnefndu, þrátt fyrir að hún innihaldi marga kosti meðvitaðrar hlustunar. Þegar við hlustum á þennan hátt erum við til staðar og hlustun án þess að einbeita okkur meðvitað að því að hlusta og spurningarnar sem við spyrjum viðmælanda okkar koma af sjálfu sér. Innsæi okkar segir okkur hvers sé þörf hverju sinni. Í upphafi krefst virk hlustun æfingar á meðvitaði hlustun áður en lengra er gengið (þýðing mín í stuttu máli).[3]

Fram á hin síðari ár hefur ekki þótt stórmannlegt að bera tilfinningar sínar á torg þó breyting hafi orðið þar á. Má þakka það að miklu leyti breyttri afstöðu almennings í kjölfar umræðu og þverfaglegrar þjónustu hinna ýmsu fagstétta á sviði líknarþjónustu, áfallahjálpar og sorgarvinnu.

Að hlusta þarfnast æfingar en með ögun hugans getum við komið okkur upp þeim góða ávana að hlusta meðvitað á meðmanneskjur okkar og heyra hvað þær eru í raun og veru að segja okkur. Við sem sinnum sálgæslu erum ekki ráðgjafar í eiginlegri merkingu en við getum lært af og fengið að láni verkfæri annars sérhæfðs fagfólks í starfi okkar.

Hlustun sem gagnvirkt atferli er ekki aðeins andlegt eða huglægt, heldur einnig mjög líkamlegt. Líkamstjáning veitir orðum okkar áherslu. Með líkamstjáningunni einni saman getum við verið til staðar í samtali okkar við aðra en á sama hátt getum við hafnað öðrum með henni. Með meðvitaðri og virkri hlustun byggjum við á reynslu okkar, skynsemi, innsæi, samhyggð og  tilfinningum.

Sjálfsþekking okkar og lífsreynsla kemur okkur því aðeins að gagni ef við erum búin að greina hana og sjá hvernig hún hefur mótað okkur sem manneskjur og fagaðila. Sálgætir þarf ætíð að hafa í huga að hann eða hún er að vinna með reynslu, tilfinningar og upplifun skjólstæðinga sinna en ekki sínar eigin. Aðeins á þann hátt getum hann beitt meðvitaðri og virkri hlustun til hagsbóta fyrir meðmanneskjur sínar þannig að þær finni eigin lausnir til þess að geta fært sig af einum stað á annan.[4]

 

Innsend grein:
Svala Sigríður Thomsen djákni tók saman

[1]NPL stendur fyrir Neuro Linguistic Programming. NLP er hugmyndarfræði sem er byggð á því að öll hegðun sé lærð,og hafi ákveðið mynstur (venjur). Neuro – hegðun mótast af úrvinnslu taugaboða sem koma frá skynfærunum fimm, AUGU-EYRU-LINGUISTIC – málfar skipuleggur hugsanir okkar og hegðun í samskiptum við aðra. Sótt á veraldarvefinn http://www.lifun.is/radgjof/ 3. apríl 2007

[2] Kold, M. Sótt á veraldarvefinn www.nip-europe.com 3. apríl 2007. Undirrituð datt einnig ofan á enskt spakmæli sem er í þessa veru: “God gave people a mouth that closes and ears that don’t, which should tell us something.” – Anonymous..

[3] Kold, M. Sótt á veraldarvefinn www.nip-europe.com 3. apríl 2007.

[4] Michel Kold segir í bók sinni Lær at skabe positive forandringer bls.7 að coaching sé hæfileikinn til að spyrja spurninga á þann hátt, að sá sem er spurður geti sjálfur fundið lausnir sem geri það mögulegt fyrir viðkomandi að ná markmiðum sínum og upplifi drauma sína og óskir. Til þess er  hlustun sem gagnvirkt atferli mikilvæg.

Um höfundinn:
Svala Sigríður Thomsen fæddist á Siglufirði 15. október 1945 og bjó víða á landsbyggðinni
og vann við hin ýmsu störf en býr nú í Reykjavík. Svala lauk sjúkraliðanámi frá
Sjúkraliðaskóla Íslands í ágúst 1988 og starfaði um árabil sem sjúkraliði á hinum ýmsu
deildum LSH en lengst af á krabbameinslækninga- og blóðsjúkdómadeildum á Landspítala
við Hringbraut. Hún varð stúdent af heilbrigðisbraut frá Fjölbraut í Breiðholti vorið 1993,
stundaði nám við Námsbraut í hjúkrunarfræði á haustönn 1993 en lauk BA prófi í guðfræði
frá guðfræðideild Háskóla Íslands haustið 1996 auk starfsþjálfunar til djáknaréttinda. Svala
var kölluð og vígð til djáknaþjónustu við Langholtssöfnuð í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
vorið 1997. Djákni á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund við Hringbraut frá því í október
2004. Lauk MA prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 2007. Eiginmaður hennar er
Hreiðar Þórir Skarphéðinsson bifreiðarstjóri og eiga þau tvær uppkomnar dætur og fjórar
dótturdætur. Þau hjónin eru nú hætt launavinnu vegna aldurs.

Sjálfshjálparbækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu, er hægt að nálgast í vefsölu www.htveir.is

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hómópatía á íslensku

Bækurnar Meðganga og fæðing með hómópatíu og Barnið og uppvaxtarárin með hómópatíu má nálgast hér og einnig sem rafbók á Amazon.

Hómópatía á ensku

Bókin Pregnancy and Childbirth with Homeopathy er þriðja bók Heildrænnar heilsu. Hægt er að panta eintak frá Amazon og einnig sem rafbók.

Kynningar fyrir hópa

Ýmsar sérhæfðar kynningar eru í boði: Meðganga og fæðing með hómópatíu, Ungbarnið og fyrstu árin með hómópatíu, Í ferðalagið með hómópatíu, Skyndiaðstoð með hómópatíu, Sérhannaðar kynningar fyrir þinn hóp.